Framlag sjávarklasans til þjóðarbúskaparins nemur um 26% af vergri landsframleiðslu og allt að 20% af störfum í landinu eru tengd klasanum, samkvæmt skýrslu um þýðingu sjávarklasans í íslensku efnahagslífi sem kynnt var í Sjóminjasafninu í gær.
Íslandsbanki styrkti gerð skýrslunnar og sagði Birna Eianrsdóttir bankastjóri frá því í ræðu sinni að hún hefði fyrst farið að huga að því að styrkja námsmöguleika í sjávarútvegsfræðum út af persónulegri upplifun. Hún hafði hitt ungan og efnilegan mann í veislu sem sagði henni að hann ætlaði að mennta sig í sjávarútvegsfræðum og hann væri því að fara til Spánar því þar væri besta námið. Það kom henni á óvart að komast að því hvað lítið námsframboð væri á Íslandi þegar um þessa grunnstoð efnahagslífsins væri að ræða og ákvað hún að leggja sitt af mörkum til að bæta það ástand.
Í umfjöllun um skýrsluna í Morgunblaðinu í dag segir, að samkvæmt þjóðhagsreikningum hafi beint framlag fiskveiða og fiskvinnslu til vergrar landsframleiðslu aðeins numið 7-10% á undanförnum árum, en samkvæmt þessari nýju skýrslu sé áætlað að heildarframlag sjávarklasans til landsframleiðslu árið 2010 hafi verið 26%, eða um 400 milljarðar króna. Þetta hlutfall er samsett úr fjórum þáttum; beinu framlagi (10,2%), óbeinu framlagi (7,3%), eftirspurnaráhrifum (7,0%) og að lokum er meðtalin önnur útflutningsstarfsemi klasans (1,5%).