Efnahagsþróunin á Íslandi sýnir að þeir sem segja að það væri stórslys fyrir lönd í Evrópu að yfirgefa evrópska samvinnu verða að koma fram með sterkari rök. Þetta segir Ambrose Evans-Pritchard, blaðamaður á breska blaðinu Telegraph.
Evans-Pritchard skrifar grein í blaðið í tilefni þeirrar ákvörðunar matsfyrirtækisins Fitch að hækka lánshæfismat Íslands. Fyrirsögn greinarinnar er „Iceland's Viking Victory“.
Í greininni er fjallað um jákvæða efnahagsþróun á Íslandi. Atvinnuleysi hafi minnkað, fjárlagahallinn hafi minnkað, stefnt sé að hallalausum fjárlögum á næsta ári og góður hagvöxtur sé á þessu ári og spáð hagvexti á næsta ári.
Evans-Pritchard bendir á að það sé ekki verið að ýta löglega kjörinni ríkisstjórn Íslands frá völdum og skipa embættismann forsætisráðherra eins og gerst hafi á Grikklandi og Ítalíu.
Hann segir að það sem gerst hafi séu rök fyrir ágæti sjálfstæðs gjaldmiðils og sjálfstæðs seðlabanka. „Mismunurinn á atvinnuleysisvofunni, skuldakreppu og samdrættinum í Evrópu er sláandi. Þeir sem vefa líkklæðin fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðin og segja að það yrði stórslys fyrir lönd sem yfirgefa Evrópu verða að koma fram með sterkari rök.
Er öruggt að Ísland muni ganga í Evrópusambandið? Ekki treysta á það,“ segir Evans-Pritchard í lok greinar sinnar.