Kínverjar gætu staðið frammi fyrir efnahagskrísu, hugi þeir ekki að endurbótum á fjármálakerfi sínu á næstu 20 árum. Þetta segir í nýrri skýrslu Alþjóðabankans og kínversku ríkisstjórnarinnar, sem ber heitið „Kína 2030“.
Í skýrslunni, sem verður formlega kynnt á mánudaginn, segir að skyndilega gæti hægt á þeim mikla efnahagsvexti sem verið hefur í Kína og að það gæti haft veruleg og víðtæk áhrif víða um heim, en Kína er næststærsta hagkerfi heims.
í skýrslunni er bent á leiðir til að forðast þetta, meðal annars að endurskipuleggja viðskiptalífið í Kína með þeim hætti að fyrirtæki í ríkiseigu dragi úr umsvifum sínum og starfi meira í átt að fyrirtækjum í einkaeigu.
Erlendum fyrirtækjum er ýmist meinað eða eru undir verulegum hömlum við að fjárfesta í nokkrum starfsgreinum í Kína, þeirra á meðal eru bíla- og orkuiðnaður, bankar og samskiptafyrirtæki. Þetta er gagnrýnt í skýrslunni. Kínverskt viðskiptalíf reiðir sig mjög á útflutning, en lagt er til í skýrslunni að sjónum verði beint í auknum mæli að innanlandsmarkaði.