Guðrún Erla er fyrsta konan í stjórn Samorku

Guðrún Erla Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Orkuveitu Húsavíkur.
Guðrún Erla Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Orkuveitu Húsavíkur.

Guðrún Erla Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Orkuveitu Húsavíkur, settist í
stjórn Samorku á aðalfundi félagsins í síðustu viku. Guðrún Erla er þar með fyrsta konan til að setjast í stjórnina en hún hefur verið veitustjóri á Húsavík síðan 2008. Er reyndar eina konan í starfi veitustjóra svo vitað sé.

„Það er virkilega spennandi að vera komin inn í stjórnina. Þetta er áhugaverður vettvangur fyrir Orkuveitu Húsavíkur og þá sem vilja vinna að málum orkufyrirtækja landsins,“ sagði Guðrún Erla.

En er þetta karllægur heimur sem hún er að ganga inn í?

„Þetta hefur verið dálítið karllægt þó að vissulega starfi einhverjar konur við stjórnunarstörf hjá orkufyrirtækjunum,“ sagði Guðrún Erla en hún er með meistarapróf í viðskiptafræðum.


Síðan Guðrún Erla kom til starfa hefur orðið mikil breyting á uppbyggingu félagsins. Árið 2009 var rafdreifikerfi félagsins selt og árið 2010 var hlutur í Þeistareykjum seldur en félagið á þó enn 3,2% hlut og mann í stjórn. „Við höfum átt ágætt samstarf við Landsvirkjun og Þeistareyki og svo verður áfram.“

Orkuveita Húsavíkur varð að opinberu hlutafélagi um síðustu áramót eftir ítarlega stefnumótunarvinnu sem lauk í mars 2011. Guðrún Erla sagði að með því að breyta félaginu í ohf. væri verið að senda skilaboð um að félagið yrði í almenningseigu um ókomna tíð. Sveitarfélagið Norðurþing á félagið að öllu leyti.

Umtalsverður hagnaður af sölu Þeistareykja

Salan á Þeistareykjum færði félaginu umtalsverðan hagnað vegna ársins 2010. Hagnaðar af sölu eignarhluta í Þeistareykjum var um 832 milljónir króna og gangvirðisbreytinga hlutabréfa 86 milljónir króna. Þá nam gengishagnaður langtímalána 125 milljónum króna. Hagnaður ársins 2010 eftir skatta nam 870 milljónum króna.  Í árslok 2010 voru eignir Orkuveitunnar bókfærðar á 1.682 milljónir króna og eiginfjárhlutfall Orkuveitu Húsavíkur var þá orðið 40,4%, en var neikvætt um 13% í ársbyrjun. Unnið er að endurskoðun uppgjörs vegna 2011.

Í lok síðasta árs skrifuðu fulltrúar Orkuveitu Húsavíkur og Norðurþings undir kaupsamning þess fyrrnefnda á vatnsveitum og fráveitum í Norðurþingi. Sýn fyrirtækisins var skilgreind sem svo að Orkuveitan væri veitufyrirtæki og hlutverk þess væri að hámarka afrakstur þeirra auðlinda sem fyrirtækinu væri trúað fyrir með skynsamlegri nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni fyrir eigendur og notendur að leiðarljósi. Að sögn Guðrúnar Erlu mun velta Orkuveitu Húsavíkur aukast nokkuð við þetta og er áætluð 270 milljónir króna á þessu ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK