Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í febrúar hækkaði um 1,01% frá fyrra mánuði. Verðbólga mæld á tólf mánaða tímabili er 6,3% og er það í takt við væntingar greiningardeilda. Í síðasta mánuði mældist verðbólgan 6,5% en vísitala neysluverðs lækkaði um 1,2% í febrúar í fyrra og það skýrir hvers vegna verðbólgan minnkar þrátt fyrir hækkun vísitölu neysluverðs á milli janúar og febrúar nú. Í janúar hafði verðbólga ekki mælst jafn mikil á Íslandi í 20 mánuði.
Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 1,42% frá janúar, samkvæmt frétt Hagstofu Íslands.
Útsölulok auka verðbólgu
Vetrarútsölum er víða að ljúka og hækkaði verð á fötum og skóm um 5,3% (vísitöluáhrif 0,28%) og á húsgögnum, heimilisbúnaði o.fl. um 3,2% (0,20%). Verð á bensíni og díselolíu hækkaði um 3,0% (0,18%) og flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 17,0% (0,16%).
Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6,3% og vísitalan án húsnæðis um 6,0%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 1,7% sem jafngildir 6,8% verðbólgu á ári (7,6% verðbólgu fyrir vísitöluna án húsnæðis).
Greiningardeildir höfðu spáð því að vísitala neysluverðs myndi hækka um 0,9-1,1% á milli mánaða.