Forstjóri Apple, Tim Cook, segist telja að Apple, sem er verðmætasta fyrirtæki heims, eigi meiri peninga en það þurfi á að halda.
Hann standi nú frammi fyrir því að ákveða hvort breyta eigi þeirri reglu sem Steve Jobs, forveri hans í starfi, hafði að greiða hluthöfum ekki arð. Hann íhugi nú hvort greiða eigi hluthöfum arð en Apple eigi 98 milljarða Bandaríkjadala, 12.181 milljarð króna, inni á bankareikningum.
Apple hætti að greiða hluthöfum arð árið 1995 þegar mikil lægð var í rekstri þess og fyrirtækið þurfti á hverju senti að halda. Staðan var jafnvel svo slæm að árið 1997 þurfti Apple að leita til helsta keppinautarins, Microsoft, eftir fjármagni, 150 milljónum dala. Á svipuðum tíma var Jobs ráðinn í starf forstjóra Apple, sem þykir ein besta ákvörðun sem fyrirtækið hefur tekið í sögu þess.