Matsfyrirtækið Standard & Poor´s hefur lækkað lánshæfismat Grikklands og segir landið tæknilega gjaldþrota, eftir að stjórnvöld náðu samningum við fjármálafyrirtæki um að afskrifa meira en 50% af skuldum þess.
S&P hafði áður sett landið í ruslflokk með lánshæfiseinkunnina CC en telur nú landið tæknilega gjaldþrota eftir að fjárfestar, flestir bankar, samþykktu að afskrifa um 107 milljarða evra af skuldum landsins.
Munu lánardrottnarnir skipta út gömlum skuldabréfum fyrir ný en það ferli hófst síðastliðinn föstudag og mun ljúka 12. mars næstkomandi.
S&P segir að gangi þessi skuldabréfaskipti eftir muni fyrirtækið endurskoða lánshæfi landsins og hugsanlega gefa því einkunnina CCC.
Ákvörðun matsfyrirtækisins hafði ekki teljandi áhrif á markaði en fjárfestar virðast vera farnir að taka tíðum fréttum af evrukrísunni af yfirvegun.