Íslenska hagkerfið þarf ekki að tengjast öðru myntsvæði til að vera fullgildur þátttakandi á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og koma böndum á verðbólguna.
Ekkert mælir gegn því að Íslendingar geti náð þeim markmiðum með íslensku krónuna sem gjaldmiðil – en þá þarf líka góða stjórn peninga- og efnahagsmála.
Þetta kom fram í máli Martins Feldsteins, hagfræðiprófessors við Harvard-háskóla, á efnahagsráðstefnu Landsbankans í gær um stöðu og þróun innlendra og erlendra markaða.
Í umfjöllun um fyrirlesturinn í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að Feldstein telur margt mæla gegn því að Ísland gerist aðili að evrópska myntbandalaginu og segist ekki geta ímyndað sér hvernig Íslendingum hefði tekist að glíma við þá erfiðleika sem efnahagslífið stóð frammi fyrir í kjölfar hruns bankakerfisins ef ekki hefði verið mögulegt að fella gengi gjaldmiðilsins.