Hækkandi olíuverð á heimsvísu er orðið stærri ógn við efnahagslíf heimsins en hættan á greiðsluþroti Grikklands að mati breska bankans HSBC. Fréttavefur breska dagblaðsins Daily Telegraph hefur þetta eftir aðalhagfræðingi bankans, Stephen King, í kvöld.
Fram kemur að ótti fjárfesta beinist nú að olíuverðinu í stað Grikklands, í það minnsta tímabundið. King segir að haldi olíuverð áfram að hækka gæti viðkvæm efnahagsleg umskipti í þróuðum ríkjum fljótt gengið til baka og verðbólga hafið innreið sína í nýmarkaðsríkjum.