Breyttir bílar í kreppu á Íslandi

Emil Grímsson stjórnarformaður Arcitc Trucks.
Emil Grímsson stjórnarformaður Arcitc Trucks.

Íslenski bílaiðnaðurinn eða sá sem felst í breytingu á fjallabílum á í kreppu um þessar mundir að sögn Emils Grímssonar, stjórnarformanns Arctic Trucks. Markaður fyrir breytta bíla hefur fallið gríðarlega síðustu ár og er nú aðeins um 10% af því sem hann var þegar best lét. Þá skortir réttar gerðir bíla til breytinga auk þess sem skattar og gjöld hafa hækkað umtalsvert.

Því miður hefur þessi markaður hér heima meira og minna horfið, allavega frá þessum viðurkenndu breytingarverkstæðum. Það er ýmislegt sem bendir til þess að þetta sé gert við aðrar aðstæður en áður og þá veit maður ekki hvar þessi þjónusta er, sagði Emil. Að sögn Emils eru það helst breytingar á bílum fyrir opinbera aðila og björgunarsveitir sem halda mönnum við efnið. Hann taldi að breytingabílamarkaðurinn í dag sé aðeins um 10% af því sem hann var þegar best lét. Félagið hefur brugðist við því með því að herja á erlenda markaði.

Þess má geta að það kostar allt frá 1,5 milljónum króna að breyta bíl fyrir 35 tommu dekk og frá 600 þúsund krónum að breyta bíl fyrir 33 tommu dekk. Þessi kostnaður virðist standa í fleiri og fleiri notendum.

Úr 13% gjöldum í 55% gjöld

Emil sagði að það væri einnig áhyggjuefni hvernig tollar og gjöld hefðu leikið þennan markað. Hann tók sem dæmi að Toytota Hilux - bíll sem væri vinsæll til breytinga - hefði farið úr því að bera 13% gjöld í 55% gjöld. Sama ætti við um pallbíla, sem áður hefðu verið vinsælir til breytinga. Í dag væru þeir nánast skattlagðir út af markaðinum. Þá hefði það gerst að breyttar áherslur hjá bílaframleiðendum gerðu það að verkum að vinsælir bílar væru nú ekki tiltækir á markaði lengur, nefndi hann þar til Nissan Patrol og Ford Econoline, dísilgerð.

Það er ljóst að eins og staðan er í dag þá vantar lausnir fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi sem hefur í auknum mæli verið að bjóða upp á fjallaferðir af ýmsu tagi. Því miður virðist núverandi bílafloti tæpast duga til þess, sagði Emil

Meirihluti starfseminnar erlendis

Bílabreytingafyrirtækið Arctic Trucks rekur nú meirihluta starfsemi sinnar erlendis enda virðist bílabreytingamarkaðurinn vera hruninn hér heima. Að sögn Emil Grímssonar, stjórnarformanns Arctic Trucks, er markaðurinn fyrir breytta bíla hér á Íslandi aðeins um 10% af því sem hann var þegar best lét.

Í dag kemur hlutfallslega mjög lítill hluti tekna Arctic Trucks frá Íslandi en hinsvegar er talsvert af þjónustu og vörum héðan selt út. Fyrr í vikunni var greint frá því að Arctic Trucks Emirates í Dubai, dótturfélag Arctic Trucks International, hefði undirritað samning við Al-Futtaim Motors, umboðsaðila Toyota í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, um breytingar á að minnsta kosti 402 bifreiðum af tegundunum Toyota Hilux og Toyota FJ Cruiser á næstu tólf mánuðum.

Að sögn Emils er þetta til marks um árangur af útrásarstarfsemi félagsins. Á sama tíma og dregið hefur verulega úr starfsemi hér á Íslandi hefur hún verið efld, sérstaklega í Noregi. Hjá Arctic Trucks vinna nú ríflega 70 starfsmenn, um 30 hér á Íslandi og um 40 í Noregi.

Að sögn Emils hafa litlar breytingar verið á hlutahafahópi Arctic Trucks undanfarið, hluthafar eru allir íslenskir fyrir utan einn útlendan sem kom inn í haust með rúmlega 1% hlut.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK