Tekjur af fyrstu sýningarviku íslensku kvikmyndarinnar Svartur á leik, voru 30 milljónir króna. Tuttugu þúsund manns hafa séð myndina þessa fyrstu viku, en hún var frumsýnd 2. mars.
Zik Zak og Filmus framleiddu myndina og forsvarsmenn þeirra eru í sjöunda himni yfir góðu gengi. Svartur á leik, sem byggist á glæpasögu Stefáns Mána, kostaði um 150 milljónir króna í framleiðslu, að því er Arnar Knútsson hjá Filmus segir í umfjöllun um myndina í Morgunblaðinu í dag.
Framleiðendur hafi fengið 64 milljónir frá Kvikmyndasjóði, 10 milljónir frá Norræna sjóðnum og íslenskir fjárfestar hafi staðið straum af því sem upp á vantaði. Myndin hefur þegar verið seld til fjölda landa fyrir tugi milljóna króna, að sögn Arnars.