Mikil ásókn hefur verið í að komast inn í Fríhöfnina, bæði frá íslenskum erlendum verslunarrekendum. „Flugstöðin er stærsti sýningargluggi Íslands og því er það keppikefli fyrir okkur í Fríhöfninni að vera með fjölbreytt úrval af íslenskum vörum á samkeppnishæfu verði og íslenskri hönnun í Dutyfree Fashion. Við teljum okkur vera í góðu samstarfi við íslenska framleiðendur og vinnum náið með mörgum þeirra, meðal annars að vöruþróun. Við höfum aukið innkaup frá birgjum á innanlandsmarkaði verulega að undanförnu eða um 25% á milli ára,“ sagði Ásta Dís Óladóttir, framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli.
Ásta Dís sagði að íslenskir hönnuðir vildu vera sjáanlegir í sýningarglugganum Fríhafnarinnar enda hafa opnast nýjar dyr fyrir nokkra þeirra á erlenda markaði í gegnum Dutyfree Fashion. Um þessar mundir er svo hugmynd uppi að fara í samstarf með Reykjavik Runway varðandi nýja íslenska hönnuði sem Ásta Dís taldi að ætti eftir að vekja mikla athygli þegar fram líða stundir. „Það má kannski segja að Dutyfree Fashion geti verið einskonar stökkpallur fyrir unga íslenska hönnuði.“
Ný merki að koma inn
Er hægt að segja e-h um hverjir vilja koma inn?
„Á vormánuðum mun koma inn nýtt merki sem margir Íslendingar þekkja en er ekki á innanlandsmarkaði. Meira get ég ekki sagt í bili. Það koma nýjar vörur eða ný merki nánast í hverjum einasta mánuði, við reynum að halda í það sem vel gengur og landanum líkar en höfum svo alltaf eitthvað nýtt með sem við skiptum þá út reglulega. Þannig eru stöðugar nýjungar, líka fyrir þá sem ferðast oft í hverjum mánuði.“
Hjá Fríhöfninni starfa um 115 manns yfir árið. „Vertíðin er auðvitað yfir sumartímann ef svo má segja og fram í nóvember og í ár munum við ráða inn tæplega 80 starfsmenn til viðbótar. Það verða því hátt í 200 starfsmenn hjá okkur í sumar.“
Um 95% af starfsmönnum Fríhafnarinnar eru af Suðurnesjum, enda er þetta stærsti vinnustaðurinn og því augljóslega mjög mikilvægur.„En við höfum ekki eingöngu verið að fjölga hjá okkur fólki heldur gerum við mjög vel við okkar starfsfólk. Í síðustu kjarasamningum var ákveðið að fara af stað með Fríhafnarskólann og hófst hann nú í janúar. Þau taka þetta í þremur lotum á einu og hálfu ári. Þetta er valkvætt nám en nánast allir starfsmenn ákváðu að taka þátt. Þarna er farið yfir allt sem snýr að þjónustu við viðskiptavini, sölutækni, samskipti og vinnustaðinn í heild sinni. Erum að vinna með mörgum af færustu sérfræðingum landsins, hverjum á sínu sviði. Virkilega skemmtilegt nám í boði.
Það er markmið okkar að Fríhöfnin sé eftirsóttur vinnustaður og við finnum það vel að fólk vill vinna hjá okkur. Fáum reglulega fyrirspurnir frá fólki sem er jafnvel í vinnu annars staðar en langar að koma og vera með í þeim stóra og góða hópi sem hérna starfar," sagði Ásta Dís.