Ríkissjóður Ítalíu tók í morgun tilboðum fyrir tólf milljarða evra í útboðum á skuldabréfum til þriggja mánaða og eins árs. Vextirnir eru mun lægri heldur en í útboðum ítalska ríkisins að undanförnu.
Ávöxtunarkrafan á skuldabréf til tólf mánaða er nú 1,405% samanborið við 2,230% í síðasta sambærilega útboði sem fram fór þann 13. febrúar sl. Ávöxtunarkrafan á skuldabréf til þriggja mánaða er 0,492% samanborið við 1,907% í september í fyrra.
Töluverð umframeftirspurn var í útboðinu en fjárfestar lögðu fram tilboð fyrir 19,5 milljarða evra.
Þykir þetta merki um að fjárfestar beri meira traust til ítalska ríkisins en í lok síðasta árs var jafnvel talið að Ítalía yrði næsta evru-ríkið sem þyrfti á stuðningi að halda vegna skulda ríkisins.