„Það er mögulegt að menn telji að til skamms tíma geti þetta styrkt gengi. það gæti lækkað verðbólguvæntingar og þar með haft einhver áhrif sem tengjast inn á markað. En til lengri tíma styrkja svona aðgerðir ekki gengi. Þetta er því miður eitthvað sem hafi verið mikil mistök hjá Alþingi að afgreiða þetta með þessum hætti,“ segir Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, um þá ákvörðun Alþingis í gær að herða gjaldeyrishöftin.
Páll segir aðgerðirnar stöðva eitthvað flæði fjármagns út úr landinu sem hefði átt sér stað á morgun. „En að mínu viti er það algerlega óverulegt í samhengi hlutanna og verið að fórna þarna meiri hagsmunum fyrir minni. Það er verið að fórna trúverðugleika fyrir litlar fjárhæðir að mínu viti í samhengi hlutanna.“
Hann segir viðurkennt í frumvarpinu að lögum Alþingis um hertari gjaldeyrishöft að alvarlegasta vandamálið gæti tengst verðbréfaflokkum sem eru sérstaklega sniðnir til þess að fjárfestar komist út með fjármagn. „Þá fyndist mér einfaldlega nær að loka bara á þá leið í stað þess að láta þetta hafa áhrif á þá flokka sem þegar eru útgefnir.“
Um viðurkennda leið að ræða
„Seðlabankinn hefur verið margspurður, meðal annars af okkur, út í þessa hluti. Hann hefur verið meðvitaður um þessa leið og staðfest að hún væri opin. Þetta hefur allt verið gert fyrir opnum tjöldum. Þetta eru viðskipti á markaði þannig að mér hefur fundist tal til dæmis um sniðgöngu vera algerlega óviðeigandi í þessu samhengi,“ segir Páll.
Um sé að ræða fjárfesta sem hafi haft væntingar um það að þarna væri um að ræða leið til þess að koma ákveðnu fé í erlenda mynt með skipulögðum hætti. Það hafi allt farið fram fyrir opnum tjöldum og með vitund og vilja Seðlabankans. „Þannig að það að grípa svona inn í tveimur dögum fyrir útborgun [...], það er algerlega óviðunandi að öllu leyti,“ segir Páll.
Spurður að því hvort herðing gjaldeyrishaftanna með þessu hætti sé til þess fallin að auka áhuga erlendra fjárfesta á Íslandi svarar Páll með því að ítreka að þarna hafi verið um viðurkennda leið að ræða sem hafi verið staðfest af Seðlabankanum sem slík. „Þá spyr maður sig eiginlega bara hvað næst?“