Greining Íslandsbanka segir lögin um breytingum á gjaldeyrishöftum til marks um miklar áhyggjur stjórnvalda af veikingu krónunnar undanfarið og áhrifum hennar á verðbólgu, auk versnandi horfum fyrir gjaldeyrisflæði næsta kastið.
„Í stórum dráttum má segja að lögin sem Alþingi samþykkti í nótt um breytingu á gjaldeyrishöftunum feli í sér aukna handstýringu Seðlabanka Íslands á gjaldeyrisflæði frá landinu. Þannig verða afborganir og verðbætur af höfuðstól skuldabréfa (íbúðabréfa (HFF) og sambærilegra skuldabréfa) ekki lengur undanþegnar höftunum, auk þess sem undanþágur þrotabúa gömlu bankanna frá höftunum eru afnumdar, þá bæði vegna greiðslna í krónum og gjaldeyri.
Þó er gerð undanþága vegna gjaldeyrisinnstæðna sem þrotabúin áttu fyrir 12. mars í Seðlabankanum eða erlendum bönkum. Í staðinn fyrir almennar undanþágur þrotabúa setur Seðlabankinn reglur um útgreiðslur þrotabúanna með þeim hætti sem samrýmist stöðugleika,“ segir í Morgunkorni.
„Þrátt fyrir að undanþágan fyrir HFF-bréfin og skyld bréf hafi leitt til þess að erlendir aðilar hafi í auknum mæli sóst í þau, þá er það ekkert nýtt á nálinni og virðast menn hér vera að grípa til örþrifaráða, og sér í lagi í ljósi tímasetningarinnar en næstkomandi fimmtudag er útborgun á íbúðabréfaflokknum HFF14 upp á 6-7 ma.kr.
Auk þess voru áhrifin af útgreiðslum þrotabúa á greiðsluflæði til og frá landinu fyrir löngu fyrirsjáanleg, og þykir okkur nokkuð sérstakt að sé verið að bregðast við þeim núna, þegar búið er að greiða fyrstu greiðslu úr þrotabúi gamla Landsbankanum og fyrsta greiðsla úr þrotabúi Glitnis er á næsta leiti. Nær hefði verið að gera þessar breytingar þegar gjaldeyrishöftin voru lögfest í september í fyrra.
Í greinargerð með lögunum er bent á að til viðbótar við mikil kaup erlendra aðila á stuttum HFF-bréfum hafi stjórnvöld áhyggjur af nýlegum útgáfum, og áformum um útgáfur, á svipuðum afborganabréfum. Má velta fyrir sér hvort að þetta hafi ekki verið fyrirsjáanlegt þegar undanþága vegna HFF-bréfanna var veitt á sínum tíma,“ segir í Morgunkorni.
Þróunin hefur snúist við
Fyrirséð var að þessi breyting á lögunum kæmi til með að hafa mikil áhrif á skuldabréfamarkaðinn, sér í lagi stuttu HFF-bréfin. Um klukkan 11:30 hafði krafa HFF14 hækkað um 1.092 punkta og HFF24 um 42 punkta en mun minni hreyfingar hafa verið á lengri íbúðarbréfaflokkum. Einnig hefur krafa verðtryggða ríkisbréfaflokksins RIKS21 hækkað nokkuð, eða um 11 punkta.
„Nokkuð áhugavert er að krafan á lengri enda óverðtryggða ferilsins hefur lækkað nokkuð, og hefur sú þróun sem var fyrst við opnun markaða snúist. Þannig hefur krafan á óverðtryggðu flokkunum sem eru með gjalddaga 2019 eða síðar lækkað um 16-23 punkta. Hugsanlegt er að erlendir fjárfestar séu að færa sig yfir í þessa flokka. Er verðbólguálagið á skuldabréfamarkaði að lækka og hugsanlega vegna þess að nú er ekki búist við sömu lækkun á gengi krónunnar og áður. Þá er hugsanlegt að í því ljósi sé þetta að hafa áhrif á væntingar um stýrivaxtahækkanir og þá til lækkunar á kröfu óverðtryggðra bréfa,“ segir í Morgunkorni.
Trúðverðugleiki haftaáætlunarinnar minnkar enn frekar
Þessar breytingar á höftunum munu væntanlega draga dilk á eftir sér þannig að trúverðugleiki haftaáætlunarinnar mun minnka enn frekar, auk þess sem traust íslenskra stjórnvalda ber hnekki, segir ennfremur í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.
„Má hér nefna að líklega verður erfiðara fyrir þá sem vilja fjárfesta hér á landi samkvæmt nýfjárfestingarleiðinni að trúa því að þeir fái höfuðstól sinn og fjármagnstekjur óáreittan þegar þar að kemur. Jafnframt er ekki ólíklegt að kröfuhafar gömlu bankanna og jafnvel erlendir eigendur íbúðarbréfanna muni stefna stjórnvöldum fyrir þessa erfirábreytingu á reglunum.
Að lokum gæti sú jákvæða þróun sem átt hefur sér stað á lánshæfismati Ríkissjóðs Íslands á árinu snúist upp í andhverfu sína, enda var framgangur við afnám hafta eitt lykilatriðið fyrir bættu mati. Auk þess mætti ætla að með því að breyta lögum svona eftir á séu þeir að auka pólitíska áhættu hér á landi sem er einn lykilþátturinn í aðferðafræði matsfyrirtækjanna við mat á lánshæfi ríkja,“ samkvæmt Morgunkorni.