Sérfræðingar sem rætt var við eru áhyggjufullir vegna óvissu um langtímaáhrif á gengi krónunar þegar spurt er um áhrif af lagasetningu Alþingis í gær sem felur í sér herðingu gjaldeyrishafta. Áhrifin komi helst fram í því að fjárfestar á skuldabréfamarkaði búist við minni verðbólgu til skamms tíma litið.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag hefur Arnar Sigurmundsson, formaður Samtaka lífeyrissjóða, áhyggjur af þeim áhrifum sem veiking krónunnnar getur haft á bæði kjarasamninga og fjárfestingar sjóðanna.
Agnar Tómas Möller hjá GAM Management segir að til lengri tíma litið sé nær óhjákvæmilegt að væntingar um minni verðbólgu gangi til baka þar sem Seðlabankinn muni fyrr en seinna stíga stærri skref í að aflétta höftunum.
Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, lýsir því yfir á vefsíðu samtakanna að hann óttist að traust fjárfesta á Íslandi rýrni enn frekar.
Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri segir hins vegar að aðgerðirnar, sem hafi verið gerðar í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn miði að því draga úr áhættu og koma í veg fyrir að krónan veikist.