Bankasýsla ríkisins hyggst ráðast fyrst í sölu eignarhlutar í Íslandsbanka hf., en þó ekki fyrr en í fyrsta lagi á síðari hluta þessa árs. Stofnunin gerir ekki ráð fyrir að sala eignarhluta í Arion banka hf. og í Landsbankanum hf. hefjist fyrr en á næsta ári og að sala í Landsbankanum hf. verði jafnvel framkvæmd í nokkrum áföngum. Þetta kemur fram í framtíðarstefnu Bankasýslu ríkisins sem var kynnt í dag.
Bankasýslan fer með eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Í árslok 2010 námu fjárhagslegar kröfur íslenska ríkisins á fjármálafyrirtækin samtals 200,7 milljörðum
króna en á sama tíma námu heildarkröfur þess 1.045 milljörðum króna, þannig að kröfurnar á fjármálafyrirtækin nema um fimmtungi af heildareignum ríkisins.
Vegna þessara miklu fjárhagslegu hagsmuna er stefnan sú að draga úr áhættu ríkisins og selja þessar eignir.
Eignarhlutur ríkisins í Landsbankanum hf. er 81,3%, en bankinn er langstærsta eignin, sem Bankasýsla ríkisins fer með. Í ríkisreikningi fyrir árið 2010 er hann bókfærður á 122 milljarða króna. Bankasýsla ríkisins telur við núverandi aðstæður ekki rétt að gera ráð fyrir að sölumeðferð á eignarhlut í Landsbankanum hf. hefjist fyrr en á árinu 2013.
Eignarhlutur ríkisins í Arion banka hf. er 13%, en Kaupskil ehf. fer með 87% eignarhlut í bankanum. Bankasýsla ríkisins telur ráðlegt að huga að sölu eignarhlutarins árið 2013, að því gefnu að skilyrði til sölu séu hagstæð.
Eignarhlutur ríkisins í Íslandsbanka hf. er 5,0%, en ISB Holding ehf. fer með 95,0% eignarhlut í bankanum. Bankasýsla ríkisins telur ráðlegt að huga að sölu eignarhlutarins í fyrsta lagi á síðari hluta þessa árs, að því gefnu að skilyrði til sölu séu hagstæð.
Þrátt fyrir að stofnfjárhlutir ríkisins í sparisjóðunum fimm séu töluvert lægri að fjárhæð en eignarhlutir í viðskiptabönkunum þremur, er umfang umsýslu þeirra mikið. Bankasýsla ríkisins hefur þegar ráðstafað eignarhlut sínum í Sparisjóði Svarfdæla með óbeinum hætti, en sala á rekstri sparisjóðsins til Landsbankans hf. var samþykkt á stofnfjárhafafundi 24. janúar sl. Stofnunin gegnir lykilhlutverki í stofnfjárhafahóp hvers sparisjóðs.