Ofurkaðlar og stærsta kaðlafléttivélin

Hampiðjan.
Hampiðjan. mbl.is/Golli

Rekstrartekjur Hampiðjunnar voru 42,4 milljónir evra, rúmir sjö milljarðar króna, í fyrra og jukust um 9% frá árinu áður. Hagnaður ársins, eftir að tillit hefur verið tekið til taps vegna aflagðrar starfsemi í Namibíu, var 7,3 milljónir evra en hann var 2,6 milljónir evra árið 2010. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Rekstrarhagnaður af reglulegri starfsemi var 12,2% af rekstrartekjum eða 5,2 milljónir evra en var 10,7% í fyrra eða 4,2 milljónir evra. Fjármunatekjur ásamt hlutdeild í hagnaði HB Granda að frádregnum fjármagnsgjöldum voru 1,9 milljónir til tekna en voru 1 milljón til gjalda á fyrra ári.

Eins og áður segir var hagnaður ársins 7,3 milljónir evra, eða um 1,1 milljarður króna.

Heildareignir voru 79,5 milljónir í árslok. Eigið fé nam 46,2 milljónum evra, en af þeirri upphæð eru 5,4 milljónir hlutdeild minnihluta í eigin fé tveggja dótturfélaga. Hlutfall eigin fjár, þegar hlutdeild minnihluta er meðtalin, var í árslok 58% af heildareignum samstæðunnar.

Vaxtaberandi skuldir námu í árslok 25,6 milljónum evra og lækkuðu um 8,1 milljón frá ársbyrjun.

Seldu einkaleyfi og dótturfélag 

Í tilkynningunni er haft eftir Jóni Guðmanni Péturssyni, forstjóra, venjulega sé seinni hluti ársins töluvert lakari hjá Hampiðjunni en sá fyrri, en sú hafi ekki verið raunin að þessu sinni. „Veruleg aukning var í sölu ofurkaðla á seinni hluta ársins, ekki síst til olíuiðnaðar, og var afkastageta Hampiðjunnar í Litháen fullnýtt í þeim vörum allan síðari helming ársins og er reyndar enn. Þá var óvenju góð sala seinni hluta ársins hjá móðurfélaginu á veiðarfærum til bæði makríl- og loðnuveiða.“

Þá seldi Hampiðjan á árinu einkaleyfi og vöruheiti tengd toghlerum og var hagnaður af því 1,4 milljónir. Einnig var dótturfélagið í Walvis Bay í Namibíu selt fyrir um eina milljón og sölustarfsemi á ofurköðlum, sem áður var á hendi dótturfélags í Noregi, var flutt til móðurfélagsins á Íslandi. „Helsta fjárfesting ársins var kaup á stærstu kaðlafléttivél sem smíðuð hefur verið og er nú verið að ljúka uppsetningu hennar í Litháen.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka