Framkvæmdastjóri Pimco, stærsta skuldabréfasjóðs heims, telur að Evrópusambandið hafi enn ekki komist yfir efnahagsvandræði sín og að Portúgal muni brátt lenda í þeirri stöðu að þurfa á öðrum björgunarpakka að halda líkt og Grikkland í ljósi neikvæðrar þróunar efnahagsmála í landinu.
Haft er eftir framkvæmdastjóranum, Mohamed El-Erian, á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að upphaflegur björgunarpakki Portúgals upp á 78 milljarða punda dugi skammt. Hann sagði að sú staðreynd ætti eftir að setja markaðina í uppnám þar sem áhyggjur mundu aukast af að einkageirinn neyddist til þess að taka þátt líkt og á Grikklandi og afskrifa miklar skuldir.
Forystumenn ESB eins og Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, hafa lagt áherslu á að Grikkland væri „algerlega sérstakt tilfelli“ og að ekki komi frekar til þess að einkaaðilar þurfi að afskrifa skuldir í skuldabréfum evruríkja.
Hins vegar segir í fréttinni að forystumenn sambandsins hafi brotið loforð sín í þeim efnum svo oft í tengslum við Grikkland að trúverðugleiki þess hafi beðið mikinn hnekki.