Svíar hafa hug á því að auka kröfur gerðar eru til fyrirtækja sem bjóða s.k. smálán þar í landi, s.s. í gegnum sms, líkt og tíðkast hefur hér á landi um nokkurt skeið. Sænska fjármálaeftirlitið mun hafa eftirlit með starfseminni eftir breytingarnar.
Ráðherra fjármálamarkaða í Svíþjóð, Peter Norman, væntir þess að breytingarnar gang í gegn á þessu ári. „Á þessu sviði er að finna bílskúrsfyrirtæki sem bera hag neytandans ekki fyrir brjósti," segir Norman í samtali við viðskiptavefritið Dagens Industri. Meðal þess sem nýlega var tekið upp var að krefjast þess af smálánafyrirtækjum að þau kanni nánar bakgrunn lántakenda og spyrji ákveðinna spurninga áður en lánið er veitt.
Talsmaður neytenda í Svíþjóð sendi í síðustu viku formlega viðvörun til nokkurra smálánafyrirtækja sem ekki fylgja neytendalögum um að breyta starfsháttum sínum. Di.se hefur eftir framkvæmdastjóra eins fyrirtækjanna, Thomas Rahman, að framganga talsmanns neytenda sé ósanngjörn
Rahman segir að tekjur og skuldastaða lántakenda hafi alltaf verið könnuð, jafnvel áður en það var fært í lög. Hann segir að sitt fyrirtæki, sem kallast Ferratum, hafni 60% umsækjenda um smálán. „93% af okkar kúnnum borga lánið til baka á réttum tíma" hefur di.se eftir Rahman.
Hér á landi hafa smálán verið í boði um nokkurra ára skeið hjá nokkrum fyrirtækjum og talsvert verð rædd. M.a. hafa umboðsmaður skuldara og Neytendasamtökin varað við slíkum lánum, en dæmi munu þess að skuldarar lendi í vítahring smálána til að fleyta sér áfram. Smálánastarfsemi lútir sem stendur ekki lögum um fjármálafyrirtæki né lögum um neytendalán vegna þess hve stuttur lánstíminn er.