Aðstæður í atvinnulífi enn slæmar

Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna …
Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. mbl.is/Rax

Nær allir stjórnendur 400 stærstu fyrirtækja landsins telja aðstæður í atvinnulífinu enn vera slæmar en þeim fjölgar sem búast við að þær batni eftir sex mánuði. Þetta er helsta niðurstaða könnunar á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja landsins sem gerð var í febrúar og mars og birt er á vef Samtaka atvinnulífsins.

Yfirleitt er nægt framboð af starfsfólki og skortur á því afmarkaður við tilteknar greinar. Að jafnaði er hvorki búist við fjölgun starfsmanna á næstunni né mikilli aukningu fjárfestinga á árinu. Verðbólguvæntingar hafa aukist mikið að undanförnu, sem og væntingar um hækkun stýrivaxta, og búist er við því að gengi krónunnar veikist áfram.

Mikill meirihluti stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins telur aðstæður í atvinnulífinu vera slæmar og hefur það mat lítið breyst undanfarin ár. Nú telja 64% stjórnenda aðstæður vera slæmar en hlutfallið var 67% í síðustu könnun sem gerð var í lok síðastliðins árs. Rúmur þriðjungur telur að þær séu hvorki góðar né slæmar en aðeins 2% að þær séu góðar. Sem fyrr er hljóðið þyngra á landsbyggðinni, en  fjórir af hverjum fimm stjórnendum á landsbyggðinni telja aðstæður slæmar en þrír af hverjum fimm á höfuðborgarsvæðinu.

Jákvæðasta matið á núverandi aðstæðum er að finna í sérhæfðri þjónustu, fjármálastarfsemi og samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu en lakast er matið í byggingarstarfsemi og sjávarútvegi. Iðnaður og verslun liggja þar á milli.

Vísitala efnahagslífsins eftir 6 mánuði ekki hærri síðan 2004

Mat á aðstæðum eftir sex mánuði hefur hins vegar breyst mikið til batnaðar undanfarna mánuði og telja nú tvöfalt fleiri stjórnendur að það batni en að það versni, þótt langflestir (66%) telji að það breytist ekki. Vísitala efnahagslífsins eftir sex mánuði, sem mælir mismun á fjölda þeirra sem telja að ástandið batni og þeim sem telja að það versni, hefur ekki verið hærri síðan árið 2004.  

Skýring þessarar breytingar er sú að þeim fækkar mjög sem telja að ástandið versni og þeim fjölgar samsvarandi sem telja að það breytist ekki. Með öðrum orðum þá fækkar þeim svartsýnu en þeim bjartsýnu fjölgar ekki. Fjórðungur stjórnenda á höfuðborgarsvæðinu sér fram á bata en einungis 7% á landsbyggðinni. Hlutfallslega flestir sjá fram á bata í fjármálaþjónustu, sérhæfðri þjónustu og verslun en fæstir í sjávarútvegi og byggingariðnaði.

Nægt framboð af starfsfólki

Heldur fleiri stjórnendur en áður telja skort vera á starfsfólki  í fyrirtækjum þeirra, 12% miðað við 10% í síðustu könnun, þótt langflestir (88%) telji svo ekki vera.  Skorturinn er nú töluvert meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Skortur á starfsfólki er einkum í sérhæfðri þjónustu, en lítill í sjávarútvegi og enginn í byggingarstarfsemi. Í öðrum atvinnugreinum finna  11-13% fyrirtækja fyrir skorti á starfsfólki.

Búist við óbreyttum starfsmannafjölda á næstunni

30 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni. Ætla má af svörum stjórnendanna að starfsmannafjöldi fyrirtækjanna standi í stað á næstu sex mánuðum. Þetta er heldur jákvæðari niðurstaða en í síðustu könnunum þar sem fram hafa komið áform um fækkun starfsmanna í heild. Þrír af hverjum fimm stjórnendum búast við óbreyttum starfsmannafjölda á næstu sex mánuðum, 21% sjá fram á fjölgun en 18% búast við fækkun. Búist er við fjölgun starfsmanna í sérhæfðri þjónustu, samgöngum og ferðaþjónustu, óbreyttum fjölda í verslun, iðnaði og fjármálastarfsemi en fækkun í sjávarútvegi og byggingarstarfsemi.

Mikil ónýtt framleiðslu- og þjónustugeta

Þrír af hverjum fjórum stjórnendum telja ekkert vandamál að bregðast við óvæntri aukningu í eftirspurn eða sölu, en tæpur fjórðungur telur það nokkurt vandamál en einungis 2% að það sé erfitt. Þetta er svipuð niðurstaða og fram hefur komið síðustu þrjú ár þar sem 70-80% stjórnenda hafa talið auðvelt að bregðast við aukinni eftirspurn, en á árunum þar á undan hvar hlutfallið 40-50%.

Staðan er svipuð í öllum atvinnugreinum nema sérhæfðri þjónustu þar sem helmingur telur nokkuð erfitt að bregðast við aukinni eftirspurn. Ekki er munur á svörum eftir staðsetningu eða stærð fyrirtækja. Yfirgnæfandi meirihluti stjórnenda telur að þessar aðstæður vari næstu sex mánuði.

Vísbendingar um að fjárfestingar aukist nokkuð á árinu

Á heildina litið koma ekki fram áform um auknar fjárfestingar á árinu. Fjórðungur stjórnenda sér fram á auknar fjárfestingar, sama hlutfall sér fram á minni fjárfestingar og helmingur býst við að þær verði óbreyttar. Þetta er svipuð niðurstaða og í síðustu könnun.

Mestar fjárfestingar eru áformaðar í samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu og í iðnaði. Áberandi er að áform um auknar fjárfestingar eru mun meiri á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Hærra hlutfall stærstu fyrirtækjanna, með fleiri en 200 starfsmenn, áformar þó auknar fjárfestingar en hlutfall þeirra sem minni eru og því má búast við nokkurri aukningu fjárfestinga í heild. Í hópi minnstu fyrirtækjanna, með færri en 40 starfsmenn, eru hins vegar skýrar vísbendingar um samdrátt fjárfestinga milli ára.

 Um könnunina

Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Capacent. Einföld könnun með 7 spurningum er gerð í annað hvert skipti, en hin skiptin er gerð ítarlegri könnun með 19 spurningum. Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 14. febrúar til 8. mars 2012 og voru spurningar 19. Í úrtaki voru 406 stærstu fyrirtæki landsins (miðað við heildarlaunagreiðslur) og svöruðu 250 þeirra þannig að svarhlutfall var 62%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK