Íslandsbanki ætlar að lækka verðtryggða húsnæðislánavexti. Lækkunin tekur til nýrra verðtryggðra húsnæðislána með föstum vöxtum með vaxtaendurskoðunarákvæði á 5 ára fresti. Annars vegar lækka vextir verðtryggðra húsnæðislána sem takmarkast við 70% af fasteignamati og fyrsta veðrétt í 4,10% fasta vexti í 5 ár og hins vegar vextir verðtryggðra viðbótarlána sem takmarkast við 80% af markaðsverði í 4,95% fasta vexti í 5 ár.
Góðar viðtökur á sértryggðum skuldabréfum sem Íslandsbanki hefur gefið út í Kauphöll Íslands gera bankanum kleift að lækka vextina en þeir taka m.a. mið af þróun vaxta á skuldabréfamarkaði og þeim kjörum sem Íslandsbanki fær á sértryggð skuldabréf sem seld eru hverju sinni, segir í tilkynningu.
Íslandsbanki býður einnig upp á óverðtryggð húsnæðislán á 5,4% breytilegum vöxtum sem eru lægstu óverðtryggðu vextirnir á ársgrundvelli sem eru í boði á markaðnum í dag. Einnig eru í boði 6,20% fastir óverðtryggðir vextir fyrstu 3 ár lánstímans.
„Val milli verðtryggðra og óverðtryggðra lána verður að taka mið af þolgæði viðskiptavina gagnvart áhættu og væntingum um verðbólgu og vexti,“ segir Jón Finnbogason, aðstoðarframkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Íslandsbanka. „Við hvetjum viðskiptavini okkar til að kynna sér vel kosti og galla beggja lánategunda svo þeir geti tekið upplýsta ákvörðun um hvora leiðina þeir velja.“