Óskhyggja var að ætla að Ísland kæmist upp úr efnahagskreppunni á nokkrum misserum. Og þó að deila megi um hraða er verið að vinna að þeim vanda sem Ísland stendur frammi fyrir. Þetta sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í morgun.
Magnús M. Norðdahl, varaþingmaður Samfylkingarinnar, spurði Má út í atvinnuleysi og aðgerðir gegn því. Hann sagði atvinnuleysi á Íslandi alltof mikið, og bak við það væru fjölskyldur í vanda. Þá benti hann á að í löndunum í kringum okkur lækkuðu seðlabankar stýrivexti til að auka fjárfestingu og fjölga störfum, en hér virtist gripið til annarra úrræða.
Hann spurði hvort tæki Seðlabanka Íslands, eins og þau væru notuð, virkuðu ekki sem skyldi og hvort þau ynnu ekki beinlínis gegn þeirri kröfu samfélagsins að unnið væri á þessum vanda.
Már benti á að atvinnuvegafjárfesting hefði aukist í fyrra og meira en Seðlabankinn bjóst við. Hún væri enn fyrir neðan sögulegt meðaltal en líta yrði til þess að ekki væri um að ræða venjulegt árferði. Hann sagði Seðlabankann reka öðruvísi stefnu en seðlabankar annarra landa í kringum okkur vegna þess að Ísland væri í öðruvísi aðstæðum. Ef verðbólgumarkmiðum væri náð gæti Seðlabankinn leyft meiri slaka í hagkerfinu.
Þá sagði hann peningastefnuna ekki geta stýrt langtímaatvinnuleysi, til þess þyrfti mun fleira. „Eitt vaxtatæki getur bara svo lítið,“ sagði Már og bætti við að fjárfestingu þyrfti.
Gylfi Zoëga, prófessor við viðskipta- og hagfræðideild, sat einnig fundinn. Hann sagði að heilmikið hefði áunnist frá hruni, og mest inni á efnahagsreikningum fyrirtækja. Þá væri atvinna einnig farin að aukast, og vísaði Gylfi til orða Más fyrr á fundinum um að vinnumagnið hefði aukist á síðasta ári, mælt í vinnustundum, þó að störfum sem slíkum fjölgaði ekki mikið. Útlit væri hins vegar fyrir að störfum væri að fjölga á þessu ári.
Jafnframt benti Gylfi á að jafnvel á þeim svæðum þar sem atvinnuleysi væri hvað mest gengi á stundum illa að manna stöður. Skýringin gæti verið sú að launin sem boðin væru væru ekki nægilega há, miðað við þær bætur sem fólk gæti fengið.