Landinn var þungur á bárunni í mars og mun svartsýnni en hann hefur verið undanfarna mánuði, þá bæði varðandi aðstæður í efnahags- og atvinnumálum í nútíð og framtíð. Þetta má ráða af Væntingavísitölu Capacent Gallup sem birt var nú í morgun en hún lækkaði um 11 stig frá fyrri mánuði og mælist nú 65,7 stig.
„Þessi þróun stingur töluvert í stúf við þróunina síðustu mánuði en vísitalan hefur hækkað samfellt síðan í nóvember sl. Þegar væntingavísitalan er undir 100 stigum eru fleiri neikvæðir en hún hefur verið það allt frá því í febrúar 2008,“ segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.
Varðandi umskipti vísitölunnar nú munar mest um laskaðar væntingar íslenskra neytenda til framtíðar en væntingar til aðstæðna í efnahags-og atvinnumálum eftir 6 mánuði lækkar um 17 stig og fer nú undir 100 stig í fyrsta sinn síðan í desember sl. Reyndar lækka allar undirvísitölur þennan mánuðinn. Þannig lækkar vísitalan sem tekur til mats á núverandi ástandi um 2,3 stig, mat á efnahagslífinu lækkar um 11 stig og mat á um atvinnuástandinu lækkar um 7 stig.
„Ekki þarf að koma á óvart að væntingar íslenskra neytenda séu að minnka í marsmánuði þegar horft er til þess að krónan hefur verið í miklum veikingarham og hefur nú veikst um tæp 4% frá því um miðjan febrúar. Sagan sýnir að vísitalan hefur sterka fylgni við gengi krónunnar. Þá hafa verðbólguhorfur versnað umtalsvert upp á síðkastið og vextir hækkað. Í þessu ljósi þarf ekki að koma á óvart að væntingar landans hafa borið skarðan hlut frá borði þennan mánuðinn,“ segir í Morgunkorni.
Væntingavísitölunni fylgdi mæling á ársfjórðungslegri vísitölu fyrirhugaðra stórkaupa. Vísitalan fyrir fyrirhuguð stórkaup hækkaði lítillega frá síðustu mælingu sem átti sér stað í desember síðastliðnum, eða sem nemur um 2,8 stig, og mælist nú 52,4 stig. Vísitölurnar sem mæla fyrirhuguð bifreiðakaup og húsnæðiskaup hækka nú á nýjan leik eftir að hafa lækkað í desember.
„Hinsvegar kemur ekki á óvart að vísitalan sem mælir fyrirhugaðar utanlandsferðir lækki nú í mars enda hefur gengi krónunnar veikst hratt undanfarnið og því eflaust margir sem hugsa sig tvisvar um áður en þeir leggja í víking. Engu að síður er ljóst að ferðaáhuginn er enn umtalsverður en 38% aðspurðra telja mjög líklegt að þeir ferðist til útlanda á næstu 12 mánuðum og 18% til viðbótar telja það frekar líklegt,“ segir í Morgunkorni.