„Þetta er mjög mikið áhyggjuefni,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, en ársverðbólgan mældist 6,4% í mars og er um að ræða rúmlega 1,05% hækkun vísitölu neysluverðs frá febrúarmánuði.
Tólf mánaða verðbólgan ætti að vera að lækka en sé þess í stað að hækka. „Krónan er búin að vera nokkuð samfellt í veikingu síðan í nóvember og hefur aldrei verið jafnveik og nú, þrátt fyrir að vera í höftum. Þetta er að grafa undan þeirri sátt sem hefur verið um fyrirkomulag launa, gengis og verðlags,“ segir Gylfi.
Hann segir þessa þróun ávísun á að landið falli í gamalt far. „Launafólk mun ekki sætta sig við að hér hækki alltaf verðlag þegar krónan veikist. Við verðum auðvitað að mæta því og verja hag heimilanna með launahækkunum. Þetta er mjög mikið áhyggjuefni og er búið að vera afstaða okkar hjá ASÍ mjög lengi gagnvart stjórnvöldum að atvinnu- og verðlagsmál ættu að vera okkar brýnasta verkefni. Það er ekki að sjá að það sé ofarlega á blaði á Alþingi.“
Gylfi segir væntingar stjórnenda fyrirtækja og aðila á fjármálamarkaði vera þær að verðbólgan verði áfram mjög há næstu misseri. „Við erum með aðra endurskoðun kjarasamninga í janúar á næsta ári og þá á verðbólgan að vera komin niður í 2,5% og gengi krónunnar að hafa styrkst talsvert, um 13-14%. Ég hef enga trú á að það takist en gerist þetta ekki verða kjarasamningarnir í uppnámi.“