Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir verðbólguna vera of mikla á Íslandi og segir að á meðan gengi íslensku krónunnar haldi áfram að gefa eftir muni verðbólgan aukast.
„Gengi krónunnar mun síga endalaust á meðan gjaldeyrishöft eru hér á landi. Það eru langtímaáhrif sem gjaldeyrishöftin hafa. Við erum að sjá það koma mjög sterkt fram í því hvernig gengið hefur verið að þróast undanfarin tvö til þrjú árin. Það eina sem getur breytt því er verulegt innstreymi fjármagns í gegnum fjárfestingar og um leið stækki útflutningsgrunnurinn. En það er hvorugt að gerast. Þá eru bara þessi langtíma áhrif af gjaldeyrishöftunum að vinna sína vinnu,“ segir Vilhjálmur.
Hann segist telja að það sé afar hæpið að spá Seðlabankans um að verðbólgan í árslok, frá desember til desember, verði 3,5% náist, en verðbólgumarkmið bankans eru 2,5%. Allt stefni í að sú spá náist ekki og að verðbólgan verði umfram það. „Við getum reiknað með að það hægi eitthvað á sigi krónunnar yfir sumarmánuðina meðal annars vegna komu ferðamanna hingað til lands. En síðan fer gengið að síga á ný.“