Vanskil hjá Íbúðalánasjóði jukust á síðasta ári. Um 7,6% lántakenda sjóðsins voru með einn eða fleiri gjalddaga í vanskilum í árslok 2011. Uppreiknaðar eftirstöðvar lána í vanskilum umfram 90 daga vanskil námu um 93 milljörðum króna í árslok.
Vanskilahluti lána með vanskil umfram 90 daga nam 6,2 milljörðum samanborið við 3,9 milljarða árið áður. Vanskil einstaklinga og lögaðila umfram 90 daga hafa aukist úr því að vera 0,51% af útlánum í upphafi árs í það að vera 0,80% í lok árs 2011.
Um 5.200 heimili sóttu um svokallaða 110% til Íbúðalánasjóðs á síðasta ári sem er heldur færra en reiknað var með í upphafi. Þegar tekið hafði verið tillit til markaðsverðs fasteigna og frádráttarbærra eigna varð niðurstaðan sú að um 2.800 heimili fengu niðurfærslu að fjárhæð 7,2 milljarða króna eða um 2,6 milljónir króna að meðaltali á heimili. Um 2.400 heimili fengu synjun en þar af voru 500 heimili þar sem húsnæði var ekki veðsett umfram 110%.
Um 63% lántakenda hafa nýtt sér þau greiðsluúrræði sem sjóðurinn býður lántakendum sínum. Þar á meðal eru greiðslujöfnun sem um 46% lántakenda nýta sér, í frystingu eru 2,4%. Um 7% lántakenda hafa lengt lán sín, 0,5% eru í sértækum úrræðum og 7% lántakenda hafa fengið afskrift veðkrafna umfram 110% af verðmæti eignar. 0,1% hefur fengið aflétt lánum
Uppreiknuð staða lána í frystingu við lok árs nam um 18 milljörðum króna sem er um 2,4% útlána sjóðsins.
Í fréttatilkynningu frá Íbúðalánasjóði segir að búast megi við að einhver hluti þessara lána lendi í vanskilum þegar úrræðum lýkur ef úrræðin hafa ekki dugað til að leysa greiðsluvanda lánþega. Í þeim tilvikum verði lántakendum vísað á önnur úrræði sem þeim kunna að standa til boða.
Á árinu leysti Íbúðalánasjóður til sín 691 íbúð til fullnustu krafna og seldi 154 íbúðir. Í eigu sjóðsins voru 1.606 fullnustueignir í lok árs 2011 og hafði þeim fjölgað um 537 á árinu. Um 40% þessara eigna eru í útleigu. Íbúðalánasjóður leigir eignir á þeim svæðum þar sem skortur er á leiguhúsnæði og sjóðurinn er ekki með ráðandi markaðshlutdeild, en aðrar eignir fara í söluferli. Bókfært virði þessara eigna tekur mið af áætluðu markaðsvirði að teknu tilliti til ástandsmats, alls 22,5 milljarðar króna.