AGS telur að hækka eigi stýrivexti

Julie Kozack, yfirmaður sendinefndar AGS á Íslandi
Julie Kozack, yfirmaður sendinefndar AGS á Íslandi mbl.is/Ómar Óskarsson

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir 2,4% hagvexti á Íslandi í ár en það er heldur minni hagvöxtur en spá Hagstofu Íslands hljóðar upp á, 2,6%. Hagvaxtarspá AGS nær til ársins 2017. Telur AGS að hækka eigi stýrivexti á Íslandi.

Í síðustu viku fór fram reglubundin umræða um stöðu og horfur í íslensku efnahagslífi í framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Jafnframt fór fram umræða um eftirfylgniskýrslu sjóðsins í kjölfar þess að efnahagsáætlun íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins lauk í ágúst 2011. Sjóðurinn birti í dag fréttatilkynningu á heimasíðu sinni þar sem greint er frá þessu.

Þar kemur meðal annars fram að spáð sé 2,6% hagvexti árið 2013, 2,2% árið 2014, 2,6% árið 2015, 2,7% árið 2016 og 2,9% árið 2017.

Hratt mun draga úr atvinnuleysi á Íslandi ef marka má spá AGS. Spáir sjóðurinn því að atvinnuleysi mælist 6,3% í ár, 6% árið 2013, 5% árið 2014, 4,4% árið 2015 og 4% á árunum 2016 og 2017.

Segir í skýrslu AGS að innlend eftirspurn skýri vöxt að mestu á Íslandi í dag og atvinnuleysi fari minnkandi. Á sama tíma sé verðbólga enn mikil. Horfur séu á frekari bata í efnahagslífinu en áfram sé hætta fyrir hendi, bæði innanlands sem utan frá.

Vegna viðvarandi verðbólguþrýstings og að verðbólgan sé áfram meiri en verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands hljóða upp á þurfi að hækka stýrivexti Seðlabankans. Eins verði að herða peningamálstefnuna á Íslandi. Of mikil hætta fylgi því ef gjaldeyrishöftunum verði aflétt Varlega verði að stíga í þá átt.

Mikill árangur hafi náðst í endurskipulagningu skulda heimila og fyrirtækja að mati AGS. Þrýstingur á frekari aðgerðir fyrir heimilin er enn mikill, en að mati sjóðsins gætu þær aðgerðir haft afleiðingar fyrir ríkissjóð og skuldahlutfall hins opinbera, sem enn er mjög hátt. Loks hvetur sjóðurinn til frekari aðgerða til að styrkja eftirlit með fjármálakerfinu og draga úr veikleikum þess.

Fjármál hins opinbera stefna í rétta átt en batinn er hægari heldur en áður var talið, að því er fram kemur í skýrslu AGS.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK