Áhrif dómsins eru 165 milljarðar

Hæstiréttur
Hæstiréttur mbl.is / Hjörtur

Að mati Fjármálaeftirlitsins verða heildaráhrif dóma Hæstaréttar um lögmæti gengistryggðra lána í hæsta lagi 165 milljarðar. Bankarnir hafa nú þegar lækkað virði lánasafns síns um 70,5 milljarða, en FME telur hugsanlegt að bankarnir þurfi að afskrifa 94,5 milljarða til viðbótar.

Fjármálaeftirlitið hefur tekið saman minnisblað vegna dóms Hæstaréttar frá 15. febrúar á þessu ári. Þar eru dregnar saman niðurstöður stofnunarinnar um hvaða áhrif dómurinn hefur á bókfært virði gengislána í útlánasöfnum lánastofnana. Voru lánastofnanirnar beðnar um að meta áhrif dómsins út frá fjórum sviðsmyndum þar sem sviðsmynd eitt gekk hvað lengst í túlkun dómsins til hins verra fyrir lánastofnanir og sviðsmynd fjögur skemmst.

Í minnisblaði Fjármálaeftirlitsins er miðað við sviðsmynd tvö sem stofnunin telur í mestu samræmi við forsendur dóms Hæstaréttar. Einungis 10% munur er á milli þeirrar sviðsmyndar sem gengur lengst og þeirrar sem gengur skemmst.

Mat Fjármálaeftirlitsins er að áhrif dóms Hæstaréttar ógni ekki fjármálastöðugleika. Fjármáleftirlitið áréttar þó að öll óvissa vegna uppgjörs gengislána er slæm fyrir fjármálakerfið og mikilvægt er að henni verði eytt. Mun stofnunin áfram fylgjast náið með framvindu mála.

Þrír dómar fallnir

Hæstiréttur hefur fellt þrjá fordæmisgefandi dóma um lögmæti gengistryggðra lána. Fyrsti dómurinn féll 16. júní 2010 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að óheimilt væri að binda höfuðstól lána við gengi erlendra gjaldmiðla.

9. júní 2011 dæmdi Hæstiréttur í svokölluðu Motormax-máli sem fól í sér að gengistryggð lán til fyrirtækja voru einnig dæmd ólögleg.

Síðasti dómurinn féll svo 15. febrúar sl. en í honum var komist að þeirri niðurstöðu að sú aðferð bankanna að miða uppgjör vaxta við óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands væri ólögmæt.

Ekki er búið að útkljá öll álitamál í sambandi við þessi gengistryggðu lán og því ríkir enn nokkur óvissa um virði þeirra.

Bókfært virði þeirra lána sem um ræðir er 668 milljarðar. Þetta er það verð sem bankarnir færa inn í reikninga sína eftir að þeir keyptu lánin af þrotabúum gömlu bankanna, en þau voru færð yfir með afslætti. Mat FME byggist á því sem stofnunin telur líklegt að bankarnir þurfi að afskrifa umfram þennan afslátt.

FME telur að dómar Hæstaréttar þýði að lánastofnanir þurfi að lækka þessi lán um 164,9 milljarða. Inn í þessari tölu eru óvissuþættir sem verður væntanlega eytt á næstu mánuðum þegar niðurstaða kemst í fleiri dómsmál. Þessi tala gæti því breyst og telur FME líklegra að talan lækki frekar en hækki.

Samkvæmt minnisblaði FME nema afskriftir vegna dómanna 31,1 milljarði vegna lána sem einstaklingar tóku og 133,8 milljörðum vegna lána sem fyrirtækin tóku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK