Vaxtakostnaður af 10 ára spænskum ríkisskuldabréfum er kominn yfir 6%. Þetta hefur orðið til að auka enn áhyggjur af því að ríkissjóður Spánar þurfi á aðstoð að halda til að geta staðið við skuldbindingar sínar.
Margvíslegir erfiðleikar steðja að efnahagslífi Spánar. Um fjórðungur vinnuaflsins er án vinnu og hagvöxtur er mjög lítill. Skuldir ríkissjóðs eru um 68% af landsframleiðslu. Þó þetta séu umtalsverðar skuldir er hlutfallið víða mun hærra. Það er t.d. yfir 160% á Grikklandi, 120% á Ítalíu og 80% í Þýskalandi. Skuldir heimila og fyrirtækja á Spáni eru hins vegar miklar og það hægir á efnahagsbatanum.
Stórir gjalddagar eru hjá ríkissjóði Spánar á næstu vikum. Seðlabanki Evrópu hefur á síðustu misserum verið að lána mikla fjármuni til viðskiptabanka á Spáni. Þessi lán eru á lágum vöxtum, en lánin voru hugsuð sem neyðarlán í þeim tilgangi að ná niður lántökukostnaði á Spáni. Nú hafa markaðsaðilar vaxandi áhyggjur af því að bankarnir nái ekki standa í skilum með afborganir af þessum lánum.
Oft er talað um að til að ríkissjóður geti verið sjálfbær megi vaxtakostnaður ekki fara upp fyrir 6%. Lántökukostnaður ríkissjóðs Spánar hefur verið að hækka á síðustu vikum og er núna 6,1% á skuldabréfum til 10 ára. Markaðurinn óttast því að Spánverjar þurfi að fara sömu leið og Grikkir og Írar sem neyddust til að biðja Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Evrópusambandið um aðstoð til að geta staðið við skuldbindingar sínar.