Kínverski fjárfestirinn Huang Nubo mun taka jörðina Grímsstaði á Fjöllum á leigu til langs tíma gangi áform hans eftir en hann á nú í viðræðum við íslensk stjórnvöld um þessa breyttu skilmála. Þetta kemur fram í viðskiptatímaritinu Forbes í dag.
Huang vildi eins og kunnugt er kaupa jörðina en fyrir þeim kaupum þurfti undanþágu sem innanríkisráðuneytið veitti ekki. Í grein Forbes er haft eftir Þórði H. Hilmarssyni, hjá Fjárfestingarstofu, að málin væru að skýrast og ættu að vera komin á hreint innan tveggja mánaða.
Fjárfestingarfélag Huang, Zhongkun Investment Group, hefur hug á að leigja land á Grímsstöðum á Fjöllum og ætlar sér að byggja þar upp ferðaþjónustu.
Í viðtali við kínversku sjónvarpsstöðina CNTV er Huang bjartsýnn á að samningar náist. „Þrátt fyrir hindranir þá höfnuðu íslensk stjórnvöld okkar tilboði ekki alfarið,“ segir Huang. „Við munum líklega ganga frá fjárfestingunni innan tveggja mánaða.“
Í viðtalinu segir Huang að uppbyggingin á Íslandi sé fyrsti hluti fjárfestingar sinnar á Norðurlöndunum. Næstu verkefni verði í Danmörku.
„Þegar samningurinn verður frágenginn mun ég fara á skíði til Grænlands með danska sendiherranum í Kína,“ upplýsir Huang.
Haft er eftir Þórði Hilmarssyni að íslensk stjórnvöld væru að uppfæra löggjöf sína í tengslum við fjárfestingar frá löndum á borð við Kína.