Verðbólgan mest hér

Reuters

Verðbólg­an var hvergi meiri á evr­ópska efna­hags­svæðinu og hér á landi í mars á sama tíma og dregið hef­ur úr verðbólgu í flest­um lönd­um Evr­ópu. Er þetta sjö­undi mánuður­inn í röð sem verðbólg­an er mest hér á landi.

Verðbólga mæld­ist 2,7% á evru­svæðinu í mars sl. miðað við sam­ræmda vísi­tölu neyslu­verðs. Er tólf mánaða takt­ur vísi­töl­unn­ar þar með hinn sami og hann var í fe­brú­ar, sem og sá sami og fyr­ir ári síðan.

Verðbólg­an mæld­ist aðeins meiri sé tekið mið af öll­um ríkj­um evr­ópska efna­hags­svæðis­ins (EES) en þó er sag­an svipuð. Þannig mæld­ist árstakt­ur sam­ræmdu vísi­töl­unn­ar 2,9% í mars, sem er óbreytt frá síðustu tveim­ur mánuðum, en þó hef­ur aðeins dregið úr verðbólg­unni frá því í mars í fyrra en þá mæld­ist hún 3,1% á svæðinu, seg­ir í Morgun­korni grein­ing­ar Íslands­banka.

Ork­an hef­ur mik­il áhrif

Þegar litið er á árstakt­inn á sam­ræmdu vísi­töl­unni og ein­staka flokk­ar vísi­töl­unn­ar eru born­ir sam­an má sjá að hækk­un­in er einna mest á liðum þar sem orku­verð kem­ur við sögu. Má hér nefna ferðir og flutn­inga (4,6%) og svo hús­næðisliðinn (4,0%) sem fel­ur í sér húsa­leigu, hita og raf­magn.

„Er þetta í takti við það sem verið hef­ur að und­an­förnu, enda hef­ur orku­verð verið einn helsti áhrifa­vald­ur mik­ill­ar verðbólgu að und­an­förnu. Óhætt er því að full­yrða að þróun verðbólg­unn­ar sé síður en svo til marks um mik­inn gang í efna­hags­líf­inu.

Má hér nefna að tunn­an af Brent hrá­ol­íu kostaði að meðaltali tæpa 115 Banda­ríkja­doll­ara í mars í fyrra en í mars sl. var hún á tæpa 126 doll­ara, og jafn­gild­ir þetta hækk­un upp á tæp 10%. Einnig hef­ur orðið tölu­verð hækk­un á áfengi og tób­aki (4,4%) síðasta árið, en minnsta verðhækk­un­in milli ára hef­ur verið á verði póst- og símaþjón­ustu sem hef­ur í raun lækkað um 2,8% milli ára. Einnig hef­ur lít­il hækk­un verið á tíma­bil­inu á tóm­stund­um og menn­ingu (0,7%) og svo mennt­un (0,9%),“ seg­ir í Morgun­korni.

Árstakt­ur lækk­ar ann­ars staðar en á Íslandi þar sem hann hækk­ar mikið

Á sama tíma og dregið hef­ur úr árstakti sam­ræmdu vísi­töl­unn­ar í flest­um lönd­um Evr­ópu síðasta árið hef­ur hann auk­ist veru­lega hér á landi. Nú í mars mæld­ist verðbólg­an hér á landi 7,8% miðað við sam­ræmdu vísi­töl­una og hef­ur hún ekki verið meiri í tæp tvö ár, eða síðan í maí árið 2010.

Jafn­framt jókst verðbólg­an mjög mikið frá því í fe­brú­ar, en þá mæld­ist hún 6,7%, og sé tekið mið af þró­un­inni síðasta árið má sjá að hún hef­ur auk­ist lang­mest hér á landi. 

„Í mars fyr­ir ári síðan mæld­ist hún 2,3% miðað sam­ræmdu vísi­töl­una, og hef­ur hún þar með auk­ist um 5,5 pró­sentu­stig frá þeim tíma. Þess má geta að verðbólg­an jókst næst­mest á þess­um sama tíma í Tékklandi. Þar mæld­ist verðbólg­an 4,2% nú í mars, sam­an­borið við 1,9% í mars fyr­ir ári og er mun­ur­inn þar á milli aug­ljós­lega mun minni en hér á landi, eða sem nem­ur um 2,3 pró­sentu­stig­um.

Kem­ur ekki á óvart að verðbólg­an hafi mælst mest hér á landi í mars af lönd­um EES, og er það sjö­undi mánuður­inn í röð sem svo ber uppi. Verðbólg­an var næst­mest í Ung­verjalandi (5,5%) í mánuðinum og þar á eft­ir á Eistlandi (4,7%). Af lönd­um EES mæld­ist verðbólg­an minnst í ná­granna­lönd­um okk­ar Nor­egi (0,5%) og Svíþjóð (1,1%), en sé Sviss (-1,0%) hér meðtalið þá er það eina landið sem upp­lifði ástand verðhjöðnun­ar í mars­mánuði.

Þess má geta að frá því í janú­ar árið 2006 hef­ur Ísland verið á toppn­um í þess­um sam­an­b­urði í 31 mánuði af þeim 75 mánuðum sem síðan þá eru liðnir, eða sem nem­ur í rúm 41% tíma­bils­ins,“ seg­ir í Morgun­korni grein­ing­ar Íslands­banka.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK