Greiningardeild Arion banka telur ókostina fleiri en kostina við aðskilnað viðskipta- og fjárfestingarbankastarfsemi. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu deildarinnar sem gefin var út í gær.
Aðskilnaður viðskipta- og fjárfestingarbankastarfsemi felur í sér að starfsemi fjármálastofnana sem taka við innlánum (viðskiptabankar) sé háð verulegum takmörkunum.
Þeir megi aðeins veita hefðbundin útlán til einstaklinga og rekstrarfyrirtækja, sinna greiðslumiðlun og veita aðra grunnbankaþjónustu. Þá mættu viðskiptabankar ekki eiga viðskipti við fjármálastofnanir sem ekki lúta sömu takmörkunum og þeir sjálfir né fyrirtæki í fjármálastarfsemi. Að öllum líkindum yrðu settar takmarkanir á notkun heildsölufjármagns.
Einhver óvissa er um einstaka atriði er snúa að framkvæmd aðskilnaðar. Óvissan snýr fyrst og fremst að því hvort útlán til stærri fyrirtækja og stærri innlán (t.d. peningamarkaðsinnlán) eigi heima í viðskipta- eða fjárfestingarbanka. Þar sem útilokað er að fjárfestingarbankar hér á landi geti fjármagnað útlán til stærri fyrirtækja munu þau ásamt stærri innlánum enda í viðskiptabönkunum.
Myndi leiða til umtalsverðra breytinga hér á landi
Algjör aðskilnaður viðskipta- og fjárfestingarbankastarfsemi hér á landi leiðir til umtalsverðra breytinga á uppbyggingu fjármálakerfisins. Aðskildir viðskiptabankar verða litlu minni en þeir voru áður og nýir fjárfestingarbankar verða litlir og vanmáttugir, segir í skýrslunni.
„Erfitt verður að fjármagna starfsemi þeirra og ná hagkvæmri fjármagnsskipan sem mun leiða til hærra verðs á fjárfestingarbankaþjónustu sem og minna framboðs. Slíkt er þó ekki endilega slæmt þar sem fjármögnun þeirra er þá verðlögð án ríkisábyrgðar en til skamms og meðallangs tíma mun slíkt leiða til minni virkni fjármálamarkaða sem gæti haft neikvæð áhrif á getu fyrirtækja til að sækja nýtt hlutafé.
Aðskilnaður leiðir til aukins kostnaðar við miðlun fjármagns hér á landi. Heildarkostnaður fjármálakerfisins eykst þar sem stærðar- og breiddarhagræði tapast. Þessi kostnaðarauki mun leiða til þess að fjármagnskostnaður lánataka hækkar og ávöxtun fjármagnseigenda lækkar. Önnur áhrif aðskilnaðar er sú að bein fjármálaleg milliganga gæti aukist. Þá fer miðlun fjármagns fram í meira mæli í gegnum félög og sjóði í fjárfestingarstarfsemi en síður í gegnum bankakerfið. Mun minna af lögum, reglum og eftirliti nær yfir þann hlutafjármálakerfisins (þ.e. sem samanstendur af sjóðum og fjárfestingarfélögum),“ segir í skýrslunni.