Salan á Actavis er hluti af skuldauppgjöri Björgólfs Thors Björgólfssonar, sem átti frumkvæðið að sölunni. Með kaupum bandaríska lyfjafyrirtækisins Watson Pharmaceuticals á Actavis Group, verður til þriðja stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims. Áætlaðar tekjur lyfjarisans í ár eru átta milljarðar Bandaríkjadollara.
Í samningunum felst að Novator, fjárfestingarfélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, eignast hlut í sameinuðu félagi, en stærð þess hlutar ræðst af afkomu Actavis. Eftir kaupin verður sameinað félag þriðja stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims.
„Ég átti frumkvæði að samningum við Watson, stýrði þeim í höfn og er sáttur við niðurstöðuna,“ er haft eftir Björgólfi Thor Björgólfssyni, stjórnarformanni Novator, í tilkynningu frá félaginu. „Það lá beint við að kanna áhuga Watson á kaupum enda fjársterkt félag með öflugan rekstur og metnaðarfull markmið. Ég er sammála framtíðarsýn stjórnenda Watson og er sannfærður um að þetta sé rétt skref fyrir Actavis.“
„Tryggir bestu hugsanlegu útkomu“
Actavis breyttist á nokkrum árum úr íslensku lyfjaheildsölunni Pharmaco, með veltu upp á 3,5 milljarða kr., í eitt af stærstu félögum á samheitalyfjamarkaði í heiminum, með um 10 þúsund starfsmenn í 40 löndum og veltu upp á 350 milljarða króna.
Actavis er með starfsemi í meira en 40 löndum og er með fleiri en eitt þúsund vörur á markaði. Actavis er með um 300 þróunarverkefni í gangi og framleiddi rúmlega 22 milljarða taflna og hylkja í fyrra, samkvæmt tilkynningu frá Actavis. Rúmlega 10.000 starfsmenn starfa hjá Actavis um allan heim og tekjur þess námu 2,5 milljörðum dala í fyrra.
Salan á Actavis er stór þáttur í skuldauppgjöri Björgólfs Thors og Novators við lánardrottna sem skýrt var frá í júlí 2010. „Ég hef margsinnis bent á að það er ekki hægt að gera upp skuldir nema raunveruleg verðmæti liggi að baki,“ segir Björgólfur Thor í tilkynningunni.
„Actavis er gríðarmikið fyrirtæki með starfsemi um allan heim og það var alltaf ljóst að það tæki tíma að koma fyrirtækinu í verð. Til allrar hamingju höfðu lánardrottnar allir skilning á því að ekki mætti flana að því verkefni og lögðu það í mínar hendur. Þess vegna fá þeir háar fjárhæðir endurgreiddar nú. Það er enginn efi í mínum huga að salan til Watson tryggir bestu hugsanlegu útkomu, öllum í hag. Ég hef alltaf stefnt að því að ljúka skuldauppgjöri mínu með sóma og salan á Actavis er mikilvægur áfangi á þeirri leið. Uppgjörið gengur samkvæmt áætlun og eftir því samkomulagi sem náðist í júlí 2010.“
Kaupverðið 4,25 milljarðar evra
Samkvæmt skilmálum samningsins mun Watson kaupa Actavis fyrir um það bil 4,25 milljarða evra. Heildargreiðslan samanstendur af 4,15 milljarða evra í reiðufé auk yfirtöku á veltiláni (e.revolving facility) upp á 100 milljónir evra, sem verður greitt upp við yfirtöku.
Kaupin eru háð venjubundnum skilyrðum, þar á meðal athugun bandarískra samkeppnisyfirvalda sem og samþykki yfirvalda utan Bandaríkjanna. Að fengnu samþykki, stefnir Watson að því að ljúka samrunanum á fjórða ársfjórðungi 2012.