Óbreytt starfsemi Actavis á Íslandi

Sigurður Óli Ólafsson, aðstoðarforstjóri bandaríska lyfjafyrirtækisins Watson.
Sigurður Óli Ólafsson, aðstoðarforstjóri bandaríska lyfjafyrirtækisins Watson. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þessi tvö fyrirtæki eiga það sameiginlegt að þau hafa vaxið mjög hratt á undanförnum árum og við teljum að sameiginlegt fyrirtæki muni vaxa enn hraðar eftir sameiningu,“ segir Sigurður Óli Ólafsson, aðstoðarforstjóri bandaríska lyfjafyrirtækisins Watson sem keypt hefur Actavis fyrir sem nemur rúmlega 700 milljörðum íslenskra króna. Að auki eru um 250 milljónir evra skilyrtar og háðar afkomu fyrirtækisins á þessu ári. Sigurður var áður forstjóri Actavis Group.

„Það sem er náttúrulega mjög spennandi hjá báðum fyrirtækjum er mjög öflugt þróunarstarf. Actavis og Watson sameiginlega fjárfesta fyrir u.þ.b. 500 milljónir dollara á ári í þróun á samheitalyfjum en eru auk þess að þróa dýr líftæknilyf sem eru að koma einkaleyfi eftir nokkur ár. Áætlaðar tekjur félaganna tveggja 2012 eru u.þ.b. átta milljarðar dollara eða um eitt þúsund milljarðar íslenskra króna á gengi dagsins í dag. Þannig að þetta er geysilega stórt félag. Þriðja stærsta samheitalyfjafélag í heiminum,“ segir Sigurður.

Hann segir að endanlega verði gengið frá kaupunum eftir að samþykki hefur fengist frá samkeppnisyfirvöldum bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu. Reiknað sé með að það verði á fjórða ársfjórðungi þessa árs. Sigurður segir að gert sé ráð fyrir því að halda áfram óbreyttri starfsemi á Íslandi og frekar auka hana en að draga úr. „Actavis er með stærri fyrirtækjum á Íslandi í dag. Ég held að þeir séu með u.þ.b. 700 starfsmenn á Íslandi. Það er geysilega góður starfsmannahópur hjá Actavis, ég þekki það auðvitað sjálfur enda vann ég hjá fyrirtækinu í sjö ár og þekki marga starfsmenn.“

Sigurður segir að sameinað félag sé með gríðarlega stórt lyfjaúrval sem vonir standi til að hægt verði að fjölga þeim lyfjum sem séu í boði á íslenska markaðinum. „Sameinað félag er með um 40 lyfjaverksmiðjur um allan heim. Þetta er geysilega stórt fyrirtæki eftir sameininguna þannig að ég held að tækifærið fyrir starfsmenn Actavis og fyrirtækið sjálft sé geysilega mikið. Actavis var auðvitað mjög skuldsett á árunum 2007 fram til dagsins í dag og þetta gefur fyrirtækinu tækifæri til þess að vaxa enn frekar í framtíðinni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK