Komin langt út fyrir þolmörk þjóðarinnar

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir það mikið áhyggjuefni hvernig verðbólgan er að þróast hér á landi og að verðbólgan mæld á þriggja mánaða tímabili er 12% og á tólf mánaða tímabili mælist verðbólgan 6,4%.

„Þetta er mjög mikil verðbólga og stefnir í að verðbólgan í ár verði um 6%,“ segir Gylfi. Hann segir að svo há verðbólga sé langt umfram þolmörk íslensku þjóðarinnar og Seðlabanka Íslands. Verðbólga kalli á hærri vexti hjá bæði seðlabanka og bönkunum sjálfum sem þoka óverðtryggðu vöxtunum upp á við á sama tíma og vextir á verðtryggð lán hækki.

Tvöfalt álag á almenning

„Gagnvart okkar félagsmönnum kemur þetta fram með tvöföldu álagi. Í fyrsta lagi minnkar okkar daglegi kaupmáttur, það er það sem við fé sem við höfum til að lifa af í þessu þjóðfélagi rýrnar gagnvart verðlagi.

Að sama skapi eru íslensk heimili skuldsett og þess vegna, hvort sem það er í gegnum óverðtryggðu kjörin eða þau verðtryggðu, kemur þetta fram í þyngri greiðslubyrði lána,“ segir Gylfi og bendir á að það sé ekki lítill hluti tekna fólk sem fer í að greiða vexti.

Lítil athygli hjá ríkisstjórninni á vandanum sem blasi við

„Þetta er mikið áhyggjuefni og ég verð að viðurkenna að það er mér mikið áhyggjuefni hvað þetta fær litla athygli hjá ríkisstjórninni. Því það er alveg ljóst að ef þetta siglir svona áfram eru kjarasamningar okkar í uppnámi og það kallar á einhver viðbrögð. Orsakavaldurinn er því miður mjög tengdur gjaldmiðli okkar og veikingu hans. Þeim ógöngum sem sá gjaldmiðill er í,“ segir Gylfi.

Hann segir það einnig áhyggjuefni hvað illa gengur að ná saman um hvernig eigi að ná Íslandi út úr þessum vanda. Bregðast verði við þessu með marktækum aðgerðum.

Þýðir að krónan yrði í frjálsu falli

Gylfi er ekki sammála Vilhjálmi Egilssyni, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, um að afnám gjaldeyrishafta sé lausnin. „Það er alveg ljóst að við þurfum að losna út úr þeim vanda sem gjaldmiðillinn hefur sett okkur í. Einhliða afnám gjaldeyrishafta myndi gera þetta sýnu verra. Ég sé ekki annað en að krónan yrði þá í frjálsu falli. Þess vegna er vandamálið að finna leiðir, annað hvort sjálf, eða í samstarfi við aðrar þjóðir, hvernig við getum náð tökum á þeim vanda sem við höfum ratað í. Hvernig getum við komið hér á meiri festu í okkar gjaldmiðilsmál, segir Gylfi.

Verðum að horfast í augu við hvaða kostir eru í boði

Ýmsar lausnir hafi þar verið nefndar en ljóst sé að Íslendingar geti ekki gert það að eigin rammleik, segir Gylfi. Því þurfi að fá samstarf við aðrar þjóðir um hvernig það verði gert. Nefndar hafi verið hugmyndir um upptöku ýmissa gjaldmiðla hér.

„En það fer minna fyrir því að fjalla um raunverulegan vanda. Þetta er flótti frá Evrópusambandsumræðunni og hvaða leiðir geta verið mögulegar í tengslum við henni. Aðalatriðið er að menn axli meiri ábyrgð á því að þetta sé það sem er að sökkva þessu þjóðfélagi. Það getur verið að menn vilji hafa meira val en höfum við þetta val? Verðum við ekki að horfast í augu við það hvaða val við höfum og hegða okkur í samræmi við það og hætta að láta eins og við höfum þetta val á sama tíma og skipið er að sökkva,“ segir Gylfi Arnbjörnsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK