Þjóðarframleiðsla á Spáni á fyrsta ársfjórðungi þess árs dróst saman um 0,3%. Það varð einnig samdráttur á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Þegar samdráttur er tvo ársfjórðunga í röð tala hagfræðingar um að kreppa sé í landinu.
Það eru ekki nema tvö ár síðan Spánn var í þessari sömu stöðu. Staða efnahagsmála í landinu er allt annað en góð. Atvinnuleysið er komið í 24,4%. Stjórnvöld reyna að draga úr halla á ríkissjóði, en það gengur illa þegar svo stór hluti launafólks er ekki með vinnu og greiðir því ekki skatta til samfélagsins. Skuldatryggingarálag hefur verið að hækka og það eykur fjármagnskostnað ríkisins.
Þá hafa menn vaxandi áhyggjur af spænskum bönkum. Standard & Poor lækkaði í dag lánshæfismat nokkurra af stærstu bönkum landsins, m.a. Santander og BBVA.