Þegar svara á spurningunni um hvort einhliða upptaka erlends gjaldmiðils í stað krónunnar sé raunhæf lausn á gjaldmiðlakreppu okkar, spurning sem var yfirskrift fundar VÍB eignarstýringarþjónustu Íslandsbanka í lok síðustu viku, er hollt að horfa til reynslu annarra landa. Vandinn í slíkum samanburði er að þau lönd sem hafa farið þessa leið eru fá og reynsla þeirra flestra stutt. Einhliða upptaka er þannig undantekningin en ekki reglan. Þetta kemur fram í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.
Þó finnast nokkur dæmi um sjálfstæð ríki sem einhliða hafa tekið upp aðra mynt sem vert er að skoða. Í Ameríku er til að mynda hægt að horfa til El Salvador, Panama og Ekvador sem einhliða tóku upp Bandaríkjadal, og í Evrópu hafa Svartfjallaland og Kosovo tekið upp evru með sama hætti.
Saga ríkja sem hafa tekið upp einhliða mynt annars lands sýnir að frekar en að byggja ákvörðun sína alfarið á efnahagslegum forsendum hafa flest ríki sem fóru þessa leið fyrir síðustu aldamót byggt ákvörðun sína á sérstæðum pólitískum aðstæðum. Lönd sem hafa á síðustu árum tekið einhliða upp gjaldmiðil annars lands hafa hins vegar tekið ákvörðun sína fyrst og fremst úr frá efnahagslegum forsendum og einnig verið frábrugðin að því leyti að þau hafa verið talsvert stærri en þau sem áður höfðu farið þessa leið. Hvaða mynt er valin til upptöku er vanalega byggt á landfræðilegum þáttum eða því hvar viðskiptatengsl viðkomandi lands liggja. Auk þessa er það sérkenni þessara landa að vegna þess hversu lítil þau eru þá hafa þau tilhneigingu til hafa gjaldeyristekjur af sölu einungis fárra tegunda af vörum og/eða þjónustu.
Myntsamstarf ekki ávísun á velgengni
Eitt af því sem kemur á óvart, segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka, þegar reynsla þjóða sem hafa tekið upp gjaldmiðil annarra ríkja, hvort sem litið er til einhliða eða tvíhliða upptöku, er skoðuð er að ekki fer alltaf saman það sem fræðin segja að slík upptaka eigi að hafa í för með sér og raunveruleikinn. Sagan kennir að stilla ber væntingum í hóf varðandi hvaða ávinning einhliða upptaka mun skila. Stórt stökk upp á við í fjárfestingum og hagvexti gerist t.d. nánast ekki. Þá sýnir nýleg reynsla að ríki geta mjög vel vel klúðrað sínum efnahagsmálum þó að þau séu innan myntsamstarfs og því ljóst að slík örlög eru engan veginn bundin við þau ríki sem hafa sína eigin flotmynt.
Verðbólga og vextir myndu líklega lækka
Reynsla þeirra landa sem tekið hafa upp erlenda mynt einhliða kennir okkur að verðbólgan myndi sennilega lækka hér á landi við slíkan gjörning, segir í Morgunkorninu. Skýringin á því er sú að við myndum flytja inn trúverðugleika erlends seðlabanka sem flestra er meiri en hins íslenska um þessar mundir. Liggur við að segja að það sé óháð því hverja af stóru myntunum Íslendingar tækju upp. Rétt er þó að benda á að verðbólgan er mismunandi milli ríkja innan myntsvæða og alls ekki víst að hér myndi ríkja sami stöðugleiki og meðaltalstölur fyrir verðbólgu á evrusvæðinu sýna ef evran yrði fyrir valinu svo dæmi sé tekið.
Þá myndi gengisáhættan gagnvart myntsvæðinu eyðast og reynslan sýnir að vextir myndu lækka. Þetta gæti alið af sér meiri fjárfestingar bæði innlendra og erlendra aðila og aukin viðskipti við myntsvæðið. Þó sýnir reynslan að þar er ekki alveg á vísan að róa. Ekki varð t.d. vöxtur í erlendum fjárfestingum í Ekvador eftir dollaravæðinguna þar þó að hún hafi aukist í El Salvador eftir dollaravæðingu þeirra.
Gallarnir eru nokkrir
Gallarnir sem fylgja einhliða upptöku eru nokkrir. Tveir þættir hafa þar helst verið í umræðunni. Í fyrsta lagi missum við möguleikann að fella gengið og færa þannig framleiðsluþætti til í hagkerfinu þegar skellir verða. Í öðru lagi verður Seðlabankinn ekki lengur lánveitandi til þrautavara fyrir bankakerfið. Reyndar myndi síðarnefndi ókosturinn ekki vera til staðar ef við myndum taka upp erlenda mynt í samstarfi við seðlabanka viðkomandi myntsvæðis. Einhliða upptaka er þannig verri kostur en tvíhliða, segir í Morgunkorninu.
Þegar við metum hvort og hversu mikið við munum sakna þess að geta ekki fellt gengið ber að líta á að krónan hefur samkvæmt niðurstöðum rannsókna verið meiri uppspretta óstöðugleika í íslensku efnahagslífi en stöðugleika. Hennar verður því vart saknað sem stöðugleikatækis.
Með erlenda mynt verður mikilvægt hversu vel okkur tekst að beita öðrum stjórntækjum og þá sérstaklega fjármálum hins opinbera til að jafna sveifluna, hvort launin séu nægjanlega sveigjanleg niður á við og í þriðja lagi hvort frjálst flæði vinnuafls milli landa sé nægjanlegt til að mæta sveiflum í innlendri eftirspurn. Hvort launin séu nægjanlega sveigjanleg niður á við munum við ekki vita fyrr en á reynir og galli þess að horfa í sögulegar tölur er sá að hegðun aðila vinnumarkaðarins breytist væntanlega þegar útgönguleið gengisfellingar er ekki lengur til staðar.
Hið sama gildir um opinberu fjármálin en reynsla annarra ríkja sýnir að einhliða upptaka annars gjaldmiðils kallar ekki endilega á ábyrgari fjármálastjórnun hins opinbera. Þar má nefna að Panama, sem er það land sem hefur eina lengstu reynslu af einhliða upptöku (dollaravæðingu), hefur næstoftast allra ríkja sótt á náðir AGS. Ástæða er til að hafa áhyggjur af því að íslenska ríkinu, jafn skuldugt og það er, myndi ganga illa í slíku umhverfi.
Einhliða upptaka er engin töfralausn
Reynslan sýnir að einhliða og einnig tvíhliða upptaka gjaldmiðils hefur sjaldan leitt til jafn stórstígra framfara og söluræður helstu baráttumanna fyrir slíkum gjörningi vísa til, að mati Greiningar Íslandsbanka. Þannig hefur hagvöxtur sjaldan tekið neinn fjörkipp í kjölfar upptöku. Hagvöxtur í El Salvador hefur t.d. verið fremur slakur frá einhliða upptöku þeirra. Þá hefur mönnum einnig reynst erfitt að sanna jákvæð hagvaxtaráhrif af tvíhliða upptöku, t.d. upptöku evrunnar fyrir lönd sem eru innan samstarfsins
Stærsti hluti þeirra hagkerfa sem tekið hafa einhliða upp annan gjaldmiðil hefur verið fámenn ríki með undir 150 þúsund íbúa. Vegna þess að þessi ríki eru vanalega opin og sérhæfð er ávinningur þeirra af upptöku annars gjaldmiðils oft meiri en þeirra sem stærri eru og sjálfum sér nægari með vörur og þjónustu. Ísland er lítið opið hagkerfi og fellur því vel inn í þennan hóp að því leyti.
Að lokum má benda á að Manuel Hinds, fyrrverandi fjármálaráðherra El Salvador, helsti ráðgjafi forsætisráðherra á tíma myntbreytingarinnar þar og aðalræðumaður á ofangreindum fundi VÍB, benti á bæði á fundinum og í bók sinni um þetta mál að ákvörðun um upptöku á að taka á góðum tíma í efnahagsmálum. Um er að ræða kerfislæga breytingu á hagkerfinu sem ber að taka á grundvelli þeirra langtíma kosta og galla sem hún hefur í för með sér fyrir hagkerfið. Þar með er ekki sagt að trúverðug stefna í þessa átt geti ekki hjálpað til við að ná hagkerfi upp úr kreppu líkri þeirri sem íslenska hagkerfið er í en Ísland hefur lengi skort trúverðuga stefnu í gjaldeyris- og peningamálum og er það slæmt fyrir efnahagsbatann, segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka.