Íbúðaverð á landinu öllu hækkaði um 1,5% í apríl samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands. Munar þar mestu um að íbúðaverð á landsbyggðinni hækkaði um 5,4% frá fyrri mánuði.
Í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka kemur fram að miklar sveiflur hafi verið í mælingum Hagstofunnar á verðþróun íbúða á landsbyggðinni það sem af er þessu ári.
„Þannig lækkaði íbúðaverð á landsbyggðinni um 2,8% í janúar og 2,6% í febrúar, en þessar lækkanir hafa nú gengið til baka með öllu. Eftir þessa rússíbanareið er niðurstaðan sú að íbúðaverð á landsbyggð hefur ekkert breyst það sem af er þessu ári. Þá hækkaði einnig verð sérbýla á höfuðborgarsvæðinu um 1,6% í apríl mánuði samkvæmt mælingum Hagstofunnar, en íbúðaverð í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu stóð í stað. Íbúðaverð á landinu öllu hefur nú hækkað um 1,6% frá síðustu áramótum samkvæmt mælingum Hagstofunnar og undanfarna 12 mánuði nemur hækkunin 8,4% að nafnvirði og 1,1% að raunvirði.
Niðursveiflan á íbúðamarkaði náði botni sínum í mars 2010 en þá hafði íbúðaverð lækkað um 15% að nafnvirði á tveimur árum. Núna hefur íbúðaverð hækkað um 13% frá því að það fór lægst, og þess er ekki langt að bíða að sú nafnverðslækkun sem varð á húsnæði í kjölfar hrunsins hafi gengið alfarið til baka en við gerum ráð fyrir áframhaldandi hækkun íbúðaverðs. Raunverð íbúða verður hinsvegar enn um sinn langt undir því sem það fór hæst. Er raunverð íbúða nú um það bil 35% lægra en það var þegar það fór hæst og tæplega fimmtungi lægra en það var í árslok 2008,“ segir í Morgunkorni.
Íbúðaverð lækkar í nágrannalöndunum
Þegar horft er til verðþróunar á íbúðamörkuðum í okkar helstu nágrannalöndum þá kemur í ljós að íbúðamarkaðir hafa víða átt erfitt uppdráttar síðustu misserin og viðsnúningurinn lætur víða á sér standa. Samkvæmt tölum sem Seðlabanki Íslands birtir í mánaðarlegum hagvísum sínum lækkaði íbúðaverð um 3,4% að raunvirði í Bretlandi á síðasta ári og á sama tíma lækkaði raunverð íbúða um 7% í Bandaríkjunum. Í Finnlandi lækkaði íbúðaverð um 2,4% á síðasta ári og um 5,3% í Svíþjóð. Í Noregi kveður hinsvegar við annan tón, en þar hækkaði íbúðaverð um 7% á síðasta ári að raunvirði. Íbúðaverð hér á landi hækkaði um 1,8% að raunvirði á síðasta ári samkvæmt þessum sama mælikvarða, segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.