Unnið er að því að sameina félögin þrjú í kringum Hörpu í eitt. Halldór Guðmundsson verður forstjóri hins sameiginlega félags, en í millitíðinni er hann ráðinn sem forstjóri allra félaganna þriggja. 44 sóttu um stöðu forstjóra Hörpu en reynsla Halldórs var talin honum til tekna, þótt hann sé ekki menntaður á sviði rekstrar.
Auglýst var eftir umsóknum um starf forstjóra Hörpu tónlistarhúss í febrúar og í gær var tilkynnt um ráðningu Halldórs Guðmundssonar. Halldór er menntaður bókmenntafræðingur og hefur starfað bæði við ritstörf, útgáfumál og dagskrárgerð í útvarpi og sjónvarpi. Það var stjórn eignarhaldsfélagsins Portusar sem sá um ráðninguna og að sögn Péturs J. Eiríkssonar stjórnarformanns var þess ekki krafist að umsækjendur hefðu menntun á sviði rekstrar eða viðskipta.
Meiri áhersla á reynslu en menntun
„Það voru sett skilyrði um háskólapróf sem nýttist í starfi auk rekstrarreynslu úr menningarheiminum eða ferðaþjónustu. Menn geta aflað sér reynslunnar með störfum þó að þeir séu ekki menntaðir í rekstri og við teljum að hann sem útgáfustjóri og rekstrarstjóri bókaútgáfu hafi mjög góða reynslu,“ segir Pétur. Halldór var útgáfustjóri Máls og menningar frá 1984 og framkvæmdastjóri, forstjóri og síðar útgefandi hjá Eddu - útgáfu hf 2000-2003. Auk þess var hann frá vori 2008 til skamms tíma framkvæmdastjóri verkefnisins „Sögueyjan Ísland“.
Halldór er ráðinn sem forstjóri Portusar, sem er móðurfélag Hörpu, Ago, sem er rekstrarfélag Hörpu og Totus, sem er fasteignafélag Hörpu. Unnið er að sameiningu þessara félaga í eitt undir nafni Hörpu og er stefnt að því að þeirri skipulagsbreytingu ljúki um mitt ár en það gæti þó tafist að sögn Péturs. Halldór verður þá forstjóri hins sameiginlega félags, en reksturinn sjálfur breytist ekkert við sameininguna að sögn Péturs, heldur er markmiðið aðeins að einfalda form hans.