Engar hópuppsagnir bárust Vinnumálastofnun í apríl mánuði síðastliðnum. Undanfarna 5 mánuði hefur aðeins ein hópuppsögn verið tilkynnt en í febrúar var 21 manns sagt upp í byggingariðnaði. Á sama tíma í fyrra hafði tæplega 300 manns verið sagt upp störfum í samtals átta hópuppsögnum, samkvæmt Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.
5.100 missti vinnuna í hópuppsögnum árið 2008
„Sem betur fer virðast hópuppsagnir nú vera á undanhaldi. Þetta þarf svo sem ekki að koma á óvart í ljósi tíðarfarsins en hópuppsagnirnar voru fylgifiskur þeirrar gríðarlegu endurskipulagningar sem atvinnulífið hefur gengið í gegnum undanfarin ár. Núna virðist horfir hinsvegar betur við og útlit fyrir að bjartari tíð sé framundan eins og einnig sést í fjölda gjaldþrota sem nú fer fækkandi á nýjan leik. Þá er störfum að fjölga og atvinnuleysið á undanhaldi.
Hópuppsagnir jukust gríðarlega í aðdraganda og kjölfar hrunsins. Þannig misstu 5. 100 manns vinnuna í hópuppsögnum árið 2008, 1.790 manns árið 2009, 742 árið 2010 og á síðasta ári misstu 752 vinnuna í samtals 18 hópuppsögnum. Samtals eru það því 8.138 störf sem hafa verið lögð niður með hópuppsögnum síðan í ársbyrjun 2008. Stærstur hluti þessara starfa hefur verið í mannvirkjagerð eða 42% af heildinni. Þá hefur 135 þessara starfa verið í fjármálageiranum og 12% í verslun. 80% starfana hafa verið á höfuðborgarsvæðinu og 7% á Suðurnesjum,“ segir í Morgunkorni.