Þinglýstum leigusamningum um íbúðarhúsnæði fækkaði um 27,6% í apríl frá marsmánuði og um 18% frá apríl í fyrra. Alls var 501 leigusamningi þinglýst í apríl á landinu öllu.
Á höfuðborgarsvæðinu fækkaði leigusamningunum um 26,8% milli mánaða en 15,3% milli ára. Á Suðurnesjum er fækkunin milli mánaða 32,3% en 13,7% milli ára, samkvæmt frétt Þjóðskrár Íslands.
Í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka í gær kom fram að leigusamningum hafi oftar fækkað en fjölgað allt frá því í janúar 2011.
„Rímar það vel við tölur um fjölda þinglýsta kaupsamninga, en þeim hefur fjölgað stöðugt í mánuði hverjum milli ára í rúm tvö ár. Reikna má með að þessi framvinda haldi eitthvað áfram á næstu mánuðum, þ.e. að kaupsamningum haldi áfram að fjölga á sama tíma og leigusamningum fækkar, en þess má geta að þrátt fyrir þennan samdrátt á leigumarkaðnum er hann enn mun stærri en hann var fyrir hrun,“ segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka í gær.