Verð hlutabréfa hefur ekki verið lægra á Spáni frá því árið 2003 en IBEX hlutabréfavísitalan lækkaði um 2,77% í kauphöllinni í Madríd í dag. Er lækkunin rakin til þess vanda sem blasir við spænskum bönkum sem hafa tapað gríðarlegum fjárhæðum á hruni fasteignamarkaðarins þar í landi.
Aðrar helstu hlutabréfavísitölur í Evrópu lækkuðu í dag og eins lækkaði evran á gjaldeyrismörkuðum. Á skuldabréfamarkaði hækkaði ávöxtunarkrafa á ítölsk og spænsk skuldabréf mikið á meðan hún lækkaði á þýsk ríkisskuldabréf.
Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,44%, DAX lækkaði í Frankfurt um 0,47% og CAC lækkaði í París um 0,20%.