Spænska ríkið mun taka yfir Bankia, sem er fjórði stærsti banki landsins. Ríkisstjórn landsins greindi frá þessu í dag og segir að ríkið muni taka yfir 45% hlut með því að breyta 4,5 milljarða evra láni, sem er með ríkisábyrgð, í hlutafé.
Búist er við að ríkisstjórn Spánar muni á föstudag greina frá viðamiklum umbótum á bankakerfinu sem er ætlað að draga úr þeirri miklu skuldabyrði sem varð til þegar fasteignabólan sprakk árið 2008.
Bankia varð til árið 2010 þegar sjö bankar, sem stóðu ótraustum fótum, voru sameinaðir í einn.