Vonlaust að afnema höft ef ríkissjóður er rekinn með halla

Árni Páll Árnason.
Árni Páll Árnason.

 „Ef ríkissjóður er rekinn með halla er vonlaust mál að afnema höft,“ segir Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar. Það sé því grundvallarforsenda að almenna samstaða sé um að reka ríkissjóð með afgangi og greiða niður skuldir. „Ef fjárlög halda ekki fullnægjandi aðhaldsstigi þannig að afgangur verði á ríkisrekstri 2014 er illmögulegt að hefja afnámsferlið,“ segir hann.

Þetta kom fram á fundi Samtaka atvinnulífsins um afnám gjaldeyrishafta í morgun.

Að hans sögn er ekki einhugur um leiðina út og fyrir vikið er hætta á að gjaldeyrishöftin festist í sessi. „Það var aldrei tekin yfirveguð ákvörðun um höftin og aldrei ljós „strategían“ út úr þeim,“ segir hann.

Árni Páll talaði um að verkefni sumarsins í stjórnmálunum væri að allir stjórnmálaflokkar á þingi og aðilar vinnumarkaðarins standi við markmið um jöfnuð í ríkisfjármálum ekki seinna en 2014 og um að Maastricht-skilyrðum verði náð sem allra fyrst.

„Þessi fyrirheit eru jafnt forsenda sjálfstæðrar krónu og upptöku evru,“ segir hann.

Árni Páll telur mikilvægt að taka upp evru og segir að krónan sé viðkvæmur gjaldmiðill án væntinga um upptökuna evrunnar. Hann segir hins vegar að það þurfi að skapa varnir til að efla krónuna sem rúmast innan EES áður en við tökum upp gjaldmiðilinn, og til þess þurfi að vera afgangur af rekstri ríkissjóðs og lækkandi sjálfbær skuldastaða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK