Í þjóðhagsspá Seðlabankans er varað við því að það sé að slakna á aðhaldi í opinberum fjármálum. Vaxandi þrýstingur virðist vera á ný útgjaldaáform og hætt sé við að þrýstingurinn aukist eftir því sem dregur nær kosningum til Alþingis.
Í þjóðhagsspánni segir að aðhald í opinberum rekstri sé einn af hornsteinum þess að endurheimta trúverðugleika Íslands á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands minnti á að skuldir ríkissjóðs næmu um 100% af landsframleiðslu og svigrúm ríkissjóðs væri því lítið.
„Miðað við núverandi fjárlög og áætlanir mun jöfnuður í ríkisrekstri nást nokkru seinna en gert var ráð fyrir í fyrri áætlunum, m.a. sakir afar kostnaðarsamra kjarasamninga sem gerður var á síðasta ári. Ýmsar forsendur fjárlaga virðast einnig brothættar og ekki er útilokað að útgjöld muni fara fram úr áætlunum og/eða að tekjur verði ekki í samræmi við áætlanir. Vaxandi þrýstingur virðist vera á ný útgjaldaáform og hætt við að þrýstingurinn aukist eftir því sem dregur nær kosningum til Alþingis. Svigrúm stjórnvalda er hins vegar afar lítið enda hið opinbera mjög skuldsett.
Sakir hafta á fjármagnshreyfingar býr hið opinbera við lægri vexti en skuldsetning þess gæti gefið tilefni til. Þegar höftin verða afnumin hverfur þetta skjól. Því er afar mikilvægt
að það verði nýtt til að draga úr lánsfjárþörf,“ segir í þjóðahagsspánni.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri benti á að gjaldeyrishöftin hefðu leitt til þess að ríkissjóður hefði tekist að fjármagna sig mjög ódýrt á innlendum markaði. Þegar höftin yrðu afnumin myndi þetta breytast og fjármagnskostnaður ríkissjóðs myndi hækka. Það væri mjög mikilvægt að þegar að þessu kæmi væri ríkissjóður orðinn sjálfbær og þyrfti ekki að halda áfram að safna skuldum.