Evran hefur ekki verið lægri gagnvart Bandaríkjadal í 22 mánuði á sama tíma og áhyggjur aukast af samdrætti í Evrópu og ekki tókst að ná samkomulagi um framtíð Grikklands innan evru-svæðisins.
Evran var í morgun skráð á 1,2516 Bandaríkjadali og er það lægsta gildi hennar frá því í júlí 2010. Gengi evrunnar hefur heldur hækkað nú í morgun og er skráð á 1,2544 dali. Í gærkvöldi var evran skráð á 1,282 dali.
Hins vegar hafa helstu hlutabréfavísitölur í Evrópu hækkað í morgun. Í Lundúnum hefur FTSE vísitalan hækkað um 0,59% þrátt fyrir að samdrátturinn hafi reynst meiri í Bretlandi á fyrsta ársfjórðungi en áður var talið.
Í Frankfurt hefur DAX vísitalan hækkað um 0,13% og í París hefur CAC vísitalan hækkað um 0,38%.