Katalónía, ríkasta hérað Spánar, óskaði í dag eftir aðstoð spænska ríkisins til að greiða af lánum. Bankia, einn af stærri bönkum Spánar, var í dag tekinn út úr spænsku kauphöllinni. Lántökukostnaður Spánar er enn að hækka.
Hlutabréf í evrópskum kauphöllum hafa fallið í dag, ekki síst vegna slæmra frétta frá Spáni.
Skuldir Katalónía eru að sliga héraðið. Fjármagnskostnaður þess hefur tvöfaldast á tveimur árum og er kominn upp í tvo milljarða evra á ári. Nú er svo komið að héraðið getur ekki greitt af lánum sem það þarf að greiða af um næstu mánaðamót. Héraðsstjórnin óskaði í dag eftir aðstoð spænska ríkisins.
Katalónía er ekki eina héraðið á Spáni sem á í erfiðleikum með að standa í skilum. Þau eru flest skuldum vafin. Katalónía er um 20% af efnahag spænska ríkisins. Það þykir því ekki góðar fréttir að ríkasta hérað Spánar geti ekki staðið við skuldbindingar sínar.
Staða spænskra banka er einnig veik. Innlánseigendur hafa síðustu daga verið að taka fé út úr Bankia og hlutabréf í bankanum hafa hríðfallið. Bankinn var afskráður úr kauphöllinni í dag.
Skuldatryggingarálag á 10 ára spænskum ríkisskuldabréfum fór í dag upp í 6,24%.