Raunhæft að ríkið greiði sér brátt arð úr bönkunum

Þrátt fyrir að það megi teljast raunhæft að ríkið geti bráðlega greitt sér út arð úr bönkunum er hins vegar mikilvægt að þeir fjármunir verði nýttir annaðhvort til að greiða niður skuldir ríkisins eða til fjárfestinga í verkefnum með sambærilega arðsemiskröfu og Bankasýsla ríkisins gerir til þeirra banka sem ríkið á eignarhlut í.

Að öðrum kosti væri betur heima setið en af stað farið. Um þetta eru viðmælendur Morgunblaðsins á einu máli.

Við stofnun „nýju“ bankanna setti Fjármálaeftirlitið skilyrði um að þeir greiddu ekki út arð á fyrstu þremur árum nýs eignarhalds. Það bann rennur úr gildi nú á haustmánuðum. Ekki liggur enn fyrir hvort FME muni fara fram á framlengingu bannsins, en í svörum frá FME kemur fram að það hafi bent á að enn sé „óvissa og veikleikar í íslenska bankakerfinu. Á meðan svo er eru þættir á borð við arðgreiðslur og takmörkun eða bann við þeim eitthvað sem Fjármálaeftirlitið skoðar“.

53 milljarða ávöxtun

Ljóst er að það er ríkur vilji á meðal stjórnvalda að hægt verði að greiða bráðlega út arð úr bönkunum. Ríkisstjórnin kynnti til sögunnar fyrir skemmstu fjárfestingaáætlun, sem á að koma til framkvæmda á árunum 2013-2015, en hún á meðal annars vera fjármögnuð með 22 milljörðum króna af arði og eignasölu hluta ríkisins í bönkunum. Bókfært virði eignarhlutar ríkisins í stóru viðskiptabönkunum hefur hækkað um 53 milljarða frá því að ríkið lagði þeim til 138 milljarða á grundvelli samkomulags um endurfjármögnun bankanna haustið 2008. Ennfremur er eiginfjárhlutfall viðskiptabankanna nokkuð sterkt um þessar mundir – á bilinu 20-22% – og samanlagt eigið fé þeirra ríflega 451 milljarður.

Einn viðmælandi Morgunblaðsins, sem vel þekkir til innan bankakerfisins, segir því að í raun sé hægt að færa góð rök fyrir því að nú séu uppi ágætar aðstæður fyrir bankana til að greiða út arð til eigenda sinna. „Lítill sem enginn vöxtur er í útlánastarfsemi bankanna og á sama tíma virðist eiginfjárstaða þeirra vera mjög sterk. Við slíkar aðstæður gæti verið heppilegt fyrir ríkið að greiða sér út arð og þannig endurheimta hluta þeirra fjármuna sem voru notaðir við endurfjármögnun bankakerfisins.“ Hann bendir hins vegar á að það sé ekki á forræði eigenda bankanna að taka slíka ákvörðun. „Það er hlutverk bankaráða að leggja arðgreiðslur til við hluthafafund.“

Ásgeir Jónsson, efnahagsráðgjafi GAMMA og lektor í hagfræði við Háskóla Íslands, segir í samtali við Morgunblaðið að „því fyrr sem ríkið losar um eignarhluti sína í bönkunum því betra. Það er umtalsverður ábati fólginn í því fyrir ríkið að nota þá fjármuni til að lækka skuldir ríkisins“. Hann segir auk þess að bankar erlendis séu almennt ekki hátt verðlagðir um þessar mundir, en fjárfestar eru í mörgum tilfellum ekki reiðubúnir að borga nema 70-90 aura fyrir hverja krónu eiginfjár – jafnvel þótt um sé að ræða stönduga banka. Þegar það sé haft í huga gæti ríkið hugsanlega hagnast meira á því að greiða sér út arð úr bönkunum en með sölu eignahluta.

Þarf sannfærandi rök

Annar viðmælandi Morgunblaðsins bendir á að við núverandi aðstæður fái ríkið um 15% arðsemi af eignarhlut sínum í bönkunum. „Stjórnvöld þurfa því að færa mjög sannfærandi rök fyrir því að opinberar fjárfestingar, eins og þær sem gert er ráð fyrir í fjárfestingaáætluninni, muni skila ríkinu sambærilegri ávöxtun,“ og minnir á í því samhengi að ríkið hafi nýverið sótt sér 125 milljarða króna erlent lán til tíu ára á 6% vöxtum. „Meðan fjármögnunarkostnaður ríkisins er jafnhár og raun ber vitni er því enn mikilvægara en ella að arðsemi af nýjum fjárfestingum sé ásættanleg.“

Ríkið og bankarnir

» Gæti verið raunhæfur kostur fyrir stjórnvöld að endurheimta hluta þeirra fjármuna sem voru lagðir til við stofnun „nýju“ bankanna með því að greiða sér út arð.
» Þriggja ára arðgreiðslubann hjá stóru bönkunum rennur út á haustmánuðum. FME skoðar hvort tilefni sé til að framlengja það.
» Mikilvægt að fjármunirnir fari í að greiða niður annaðhvort lán ríkisins eða arðbærar fjárfestingar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka