Verðbólguhorfur hafa versnað

mbl.is/hag

 Meginbreytingin frá þjóðhags- og verðbólguspá Hagfræðideildar Landsbankans frá því í nóvember er að verðbólguhorfurnar hafa versnað umtalsvert. Miklar verðbólguvæntingar, veik viðbrögð peningastefnunefndar og útlit fyrir áframhaldandi veikingu krónunnar á tímabilinu gerir það að verkum að reiknað er með því að verðbólgan verði vel yfir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands á öllu spátímabilinu. Þetta kemur fram í uppfærðri þjóðhags- og verðbólguspá bankans.

Seðlabankinn búinn að missa tökin

Verðbólguvæntingar hafa nú um langt skeið verið umtalsvert yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans og hafa þær farið hækkandi undanfarna mánuði. Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur reynt að hafa áhrif á verðbólguvæntingarnar með ítrekuðum yfirlýsingum um að ef verðbólgan lækki ekki á komandi mánuðum (fram að næsta fundi) muni nefndin bregðast við með hækkun stýrivaxta. Efndir á þessum yfirlýsingum peningastefnunefndar hafa ekki alltaf verið í takt við loforð, segir í Vegvísi Landsbankans. 

Afleiðingin er sú að nú veitir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans og stjórnvalda verðbólguvæntingum heimila, fyrirtækja og fjárfesta litla sem enga kjölfestu. Verðbólguþróunin og stighækkandi langtíma-verðbólguvæntingar allt frá upphafi árs 2011 eru afar sterk vísbending um að Seðlabankinn sé búinn að missa tökin á verðbólgunni. Þegar það er raunin öðlast verðbólgan sjálfstætt líf sem nærist á háum verðbólguvæntingum og víxlhækkunum verðlags og launa. Það getur tekið langan tíma fyrir Seðlabankann að vinna upp þann trúverðugleika sem tapast hefur og herkostnaðurinn, í formi hárra stýrivaxta, verður mun meiri en ef brugðist hefði verið við tímanlega.

„Peningastefnunefndin hefur ítrekað leyft sér þann munað að bíða, vona og sjá hver þróunin verður fram að næsta fundi í stað þess að bregðast við þeim hagvísum sem liggja fyrir hverju sinni. Þess ber þó að geta að veikburða vaxtahækkanir nefndarinnar hafa mætt mikilli andstöðu hjá fyrirferðamiklum aðilum í opinberri umræðu, svo sem talsmönnum launþegahreyfinga og hagsmunasamtökum atvinnurekenda. Tilgangurinn með sjálfstæðum Seðlabanka og peningastefnunefnd er hinsvegar sá að peningastefnan taki mið af lögbundnu verðbólgumarkmiði en ekki því hversu vinsælar nauðsynlegar ákvarðanir kunni að verða,“ segir í Vegvísi hagfræðideildar Landsbankans.

Hagvaxtarhorfurnar næstu 3 árin eru í stórum dráttum svipaðar og reiknað var með í þjóðhagsspá hagfræðideildar Landsbankans í nóvember. Gert er ráð fyrir heldur meiri hagvexti á þessu ári, eða um 3%, sem einkum skýrist af áframhaldandi krafti í vexti einkaneyslu og fjármunamyndunar. Á næsta ári er útlit fyrir að hagvöxtur hægist niður í 2% en aukist á ný í 3% 2014.

Einkaneyslan eykst

 Gert er ráð fyrir að vöxtur einkaneyslunnar á þessu ári verði meiri en áður var reiknað með en að verulega dragi úr vextinum 2013 og 2014 eftir því sem gengur á sparnað landsmanna enda muni kaupmáttur lítið aukast þessi tvö ár. Spá um þróun samneyslunnar er nánast óbreytt frá því í nóvember en reiknað er með 1-1,5% árlegri aukningu. Útlit er fyrir minni opinbera fjárfestingu í ár eða aðeins um 2% vexti milli ára en meiri aukningu 2013 og 2014. Einnig er nú spáð talsvert minni vexti atvinnuvega- og íbúðafjárfestingar en í nóvember.

Krónan veikist

Takmarkað aðgengi að erlendu lánsfjármagni gerir það að verkum að erfitt er fyrir fyrirtæki og stofnanir að endurfjármagna erlend lán, segir í Vegvísi Landsbankans. Þetta veldur vaxandi þrýstingi á gengi krónunnar þar sem eftirspurn eftir gjaldeyri er einfaldlega mun meiri en framboðið. Reiknað er með því að gengi krónunnar veikist um 3% árlega á spátímanum, þrátt fyrir áframhaldandi afgang af vöru og þjónustuviðskiptum við útlönd.

Búist er við því að atvinnuleysi minnki á spátímabilinu samfara auknum umsvifum í efnahagslífinu. Gert er ráð fyrir að atvinnuleysið verði 6% að meðaltali árið 2012, 5% árið 2013 og 4,7% árið 2014.

Vegvísir hagfræðideildar Landsbankans í heild.

Takmarkað aðgengi að erlendu lánsfjármagni gerir það að verkum að …
Takmarkað aðgengi að erlendu lánsfjármagni gerir það að verkum að erfitt er fyrir fyrirtæki og stofnanir að endurfjármagna erlend lán mbl.is/reuters
Búist er við því að atvinnuleysi lækki á spátímabilinu samfara …
Búist er við því að atvinnuleysi lækki á spátímabilinu samfara auknum umsvifum í efnahagslífinu. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK